Ferðaþjónustunám

Íbúum Fjallabyggðar gefst nú kostur að mennta sig í ferðaþjónustu. Námið fer fram í námssveri Dalvíkurbyggðar í samvinnu við Símey, símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Á íbúaþingi í haust kom fram að aukin tækifæri væru í ferðaþjónustu sem við í Fjallabyggð ættum að nýta okkur. Því miður hefur það tíðkast hér á landi að þeir sem áhuga hafa á ferðaþjónustu geta unnið við það án nokkurrar menntunar í faginu. Um er að ræða nám:

a)    fyrir alla þá sem hafa áhuga á ferðaþjónustu eða starfa í fyrirtækjum og stofnunum sem hafa einhver tengsl við ferðamenn, eins og söfn, sundlaugar, íþróttahús, bensínstöðvar, golfklúbbar, hótel o.s.frv.

b)      fyrir framhaldsskólanemendur  t.d. þá sem starfa við ferðaþjónustu á sumrin. Þeir fá námið metið í framhaldsskólanum.

Námið hefst í byrjun mars og kennt verður 8 laugardaga. Það er metið til 5 eininga í framhaldsskóla og er 60 kennslustundir eða 40 klukkustundir. Fyrirhugað er að vera með Ferðaþjónustu II næsta haust og Ferðaþjónustu III á næsta ári, alls 15 einingar. Engin próf eru í áfanganum, aðeins eitt verkefni. Námið endar með diplóma og formlegri útskrift.

Kostnaður fyrir hvern nemanda er aðeins 9 þúsund krónur. Hægt er að sækja um niðurgreiðslu hjá stéttarfélögum.

Þeir sem hafa áhuga eru beðnir um að hafa samband við Karítas Skarphéðinsdóttur Neff fræðslu- og menningarfulltrúa Fjallabyggðar fyrir 25. janúar nk.