Ferðastefna fyrir Fjallabyggð

Frá fundi um ferðastefnu Fjallabyggðar. Mynd: Jón Hrólfur.
Frá fundi um ferðastefnu Fjallabyggðar. Mynd: Jón Hrólfur.
Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar stóð fyrir opnun fundi í gær til að ræða ferðastefnu fyrir Fjallabyggð.  Ágætis mæting var á fundinn meðal ferðaþjónustuaðila. 
Fundurinn hófst á því að Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands kynnt starfsemi markaðsstofunnar en hún hefur það hlutverk að samræma  markaðs- og kynningarmál norðlenskrar ferðaþjónustu gagnvart innlendum og erlendum ferðamönnum.
Fram kom hjá Arnheiði að tæp 80% af erlendum vetrarferðamönnum séu að koma til landsins til að upplifa náttúru landsins. Það sem ferðamönnun er minnistæðast frá heimsókn sinni til landsins, á eftir Bláa lóninu, er náttúra eða landslag, matur eða veitingastaðir, fólk, gestrisni og norðurljós. 

Kristinn J. Reimarsson markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar fór yfir tilurð þessa fundar og hugmyndina á bak við gerð ferðastefnu fyrir sveitarfélagið. Markmið er að móta og styrkja jákvæða ímynd Fjallabyggðar sem ferðamannasvæðis og gera áætlun um hvernig hægt er að gera Fjallabyggð að eftirsóttum áfangastað fyrir ferðamenn árið um kring.  Fram kom að töluvert vanti upp á betri kynningu á sveitarfélaginu eða Tröllaskaganum í samanburði við nágrannasvæðin en nú þegar er verið að vinna með hugmyndir til að bæta úr því.  

Eftir framsögu þeirra Arnheiðar og Kristins var skipt upp í þrjá umræðuhópa þar sem fundarmenn veltu upp hinum ýmsu atriðum sem innlegg í gerð ferðastefnu sveitarfélagsins.  Eftirtalin atriði voru til umræðu:
Ferðastefna – til hvers?
Hlutverk sveitarfélagsins
Hlutverk ferðaþjónustuaðila

Ímynd Fjallabyggðar
Fyrir hvað stendur Fjallabyggð gagnvart ferðamennsku /“ túrisma“? Hver er sérstaðan?
Íþróttir/útivist
Menning/saga
Upplifun/gleði
Hver er söluvaran? (Paradís norðursins?)
Siglufjörður vs. Ólafsfjörður 

Samtök ferðaþjónustuaðila í Fjallabyggð / Tröllaskaga
Kostir vs. gallar?
Hvað græðum við á því að vinna saman? Eða græðum við eitthvað á því að vinna saman?Markaðssetning  

Umræður voru mjög góðar og greinlega hugur í fólki að efla þurfi ferðaþjónustu í Fjallabyggð enn frekar.  Mikil samstaða einkenndi umræðurnar og ferðaþjónustuaðilar á einu máli að samvinna og samráð sveitarfélagsins og ferðaþjónustuaðila séu lykilatriði til að árangur náist.
Markaðs- og menningarnefnd ásamt fulltrúum frá ferðaþjónustuaðilum munu í framhaldinu vinna með hugmyndir frá þessum fundi og vonandi mun ferðastefna sveitarfélagsins líta dagsins ljós með vorinu.


Líflegar umræður voru á fundinum. (Mynd: Jón Hrólfur Baldursson)


Hálfdán og Ásta frá Hótel Siglunesi ásamt Kristni J. Reimarssyni. (Mynd: Jón Hrólfur Baldursson)