Á fundi markaðs- og menningarnefndar þann 9. janúar sl. var samþykkt að hefja vinnu við ferðamálastefnu Fjallabyggðar. Markmið með
gerð ferðamálastefnu er að móta og styrkja jákvæða ímynd Fjallabyggðar sem ferðamannasvæðis og gera áætlun um hvernig
hægt er að gera Fjallabyggð að eftirsóttum áfangastað fyrir ferðamenn árið um kring.
Ferðaþjónusta er mikilvægur atvinnuvegur á Íslandi og fjöldi ferðamanna sem heimsækja landið hefur aukist ár frá ári,
og því er nauðsynlegt að Fjallabyggð marki sér stefnu í þessum málaflokki.
Fjallabyggð hefur upp á margt að bjóða og með samstilltu átaki sveitarfélagsins og ferðaþjónustuaðila hefur Fjallabyggð alla
burði til þess að fá til sín fleiri ferðamenn og gesti og mun sú aukning vonandi skila sér í fjölbreyttari þjónustu og
afþreyingu.
Samkvæmt þjónustusamningi á milli Fjallabyggðar og Markaðsstofu Norðurlands mun markaðsstofan aðstoða Fjallabyggð við mótun
stefnu í ferðamálum og mun markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar stýra vinnunni fyrir hönd sveitarfélagsins.