Héðinsfjörður hreinsaður

Mynd: Örlygur Kristfinnsson
Mynd: Örlygur Kristfinnsson

Sunnudaginn 8. ágúst var gerður út leiðangur í Héðinsfjörð til að hreinsa plastrusl af fjörukömbum og nálægu umhverfi. Siglt var á Örkinni hans Gunna, en Gunnar Júlíusson lagði fram skip sitt og vinnu í þágu þessa góða málefnis. Alls voru 15 manns á öllum aldri um borð, sem tilbúnir voru að leggja á sig mikla vinnu þegar í land var komið. Einnig tóku landeigendur þátt í hreinsuninni. Og sveitarfélagið Fjallabyggð veitti aðstoð.

Hreinsun Héðinsfjarðar hófst fyrir nokkrum árum en fyrir alvöru síðasta haust að frumkvæði og með einstakri atorku þeirra Ragnars Ragnarssonar (Ragga Ragg) og Lísu Dombrowe – og var þá mikið magn plastúrgangs flutt frá Héðinsfirði til endanlegrar förgunar – sjá: https://trolli.is/rusli-fleytt-eftir-hedinsfjardarvatni/  og https://www.fjallabyggd.is/is/moya/gallery/index/index/hreinsun-i-hedinsfirdi/hreinsun-i-hedinsfirdi

Hreinsunarvinnan að þessu sinni gekk með ágætum eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Níu stórir sekkir voru fylltir og fluttir til hafnar á Siglufirði, á.a.g. 12-15 rúmmetrar. Mikið af plastinu – aðallega leifar veiðarfæra og fiskikassa og kara – virðist hafa safnast þarna á mörgum áratugum og margt hvert gróið ofan í jörðina. Eftir þennan síðasta leiðangur má ætla a.m.k. 90% af plastruslinu í Héðinsfirði hafi verið tekið og flutt burt.

Fjallabyggð þakkar þeim Ragnari og Lísu, Örlygi, Guðmundi og hinum fjölmörgu öðrum fyrir einstakt afrek, fórnfýsi og elju. Þeim verður seint fullþakkað fyrir framtak þeirra í þágu samfélagsins og náttúrunnar. 

Frétt: Örlygur Kristfinnsson
Myndir: Örlygur Kristfinnsson

   
Gunni og Skúli ýta úr vör – ljósm: MÖ

Sekkjunum raðað á þilfarið. Skúli og Gunni – ljósm: HÖ

Steingrímur með heilmikla kaðalhönk í eftirdragi  –  ljósm: HÖ
 

    

 

Net og saltpoki vaxin gróðri – ljósm: ÖK

Raggi og Lísa ásamt Guðmundi og Rósu, landeigendum – ljósm: MÖ  

 

 Fréttin birtist á Trölla.is þann 14. ágúst sl.