Dagur leikskólans í dag

Í dag 6. febrúar er dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum Fjallabyggðar en dagurinn er merkisdagur í sögu leikskólans hér á landi því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Félagar í Félagi leikskólakennara eru um 2.200 og tæplega 500 manns eru í Félagi stjórnenda leikskóla.Tilgangurinn með deginum er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.

Í tilefni dagsins fóru börnin á leikskólanum Leikskálum á Siglufirði í gönguferð um bæinn og sýndu sig og sáu aðra. Börnin komu meðal annars við fyrir utan ráðhús Fjallabyggðar.  Kalt var í veðri í dag en þessir litlu ofurhugar létu það ekki hafa áhrif á sig og sungu nokkur lög af sinni alkunnu snilld. Þökkum við þeim kærlega fyrir komuna. Heimsókn barnanna lýsir svo sannarlega upp daginn og gleður hvers manns hjarta.

Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla.

Notum tækifærið og vekjum athygli á daglegu starfi leikskólanna. Myllumerkið er #dagurleikskolans2018.

Myndir úr heimsókn barnanna í Ráðhús Fjallabyggðar