Nú eru aðeins fimm dagar í að hin árlega Blúshátið hefjist í Ólafsfirði. Íbúar Fjallabyggðar og gestir eiga von á góðri skemmtun en alls munu fjórar stórhljómsveitir stíga á stokk en það eru BBK-band, Dagur Sig og blúsband, Gæðablóð og South river band.
Samkvæmt venju verður markaður við Tjarnarborg á laugardeginum milli kl. 14:00 - 16:00 og eru allir áhugasamir sem vilja vera með söluborð beðnir um að hafa samband við Sunnu Björg í síma 8490206 eða í gegnum netfangið sunnabvals@gmail.com.
Miðaverð á tónleikana er 3.000 kr. kvöldið eða kr. 5.000 fyrir bæði kvöldin.
Föstudaginn 26. júní í Menningarhúsinu Tjarnarborg
Tónleikarnir hefjast kl. 21:00
Þetta kvöld munu hljómsveitirnar BBK-band og Dagur Sig og Blúsband leika.
BBK band skipa:
Halldór Bragason gítar, söngur. Sigurður Sigurðsson söngur, munnharpa. Jón Ólafsson bassi, söngur. Tryggvi Höfner gítar, Birgir Baldursson trommur.
Við setningu Blúshátíðar í Reykjavík 28. mars sl. var Sigurður Sigurðsson, munnhörpuleikari og söngvari útnefndur heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur.
Jón Ólafsson bassaleikari var útnefndur heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur 2014 fyrir framlag sitt blústónlistarinnar á Íslandi. Blústónlistinn hefur fylgt Jóni allan hans tónlistarferil. Hann vakti fyrst athygli sem bassaleikari Tatara, þá 16 ára gamall. Síðan hefur hann spilað með mörgum þekktustu og vinsælustu hljómsveitum landsins s.s. Pelican, Póker, Start og Vinum Dóra.
Halldór hefur komið að blúshátíðum víða um land, staðið fyrir námskeiðum og kennt fjölda manns að njót og spila blús. Halldór hefur spilað með mörgum virtustu blústónlistarmönnum samtímans, bæði á Blúshátíð í Reykjavík og erlendis, ýmist einn eða með hljómsveitunum sínum Vinum Dóra og The Blue Ice Band.
Dagur Sig og Blúsband er ungt og upprennandi blúsband. Hljómsveitin kom saman og spilaði á Blúshátíð 2015 og voru viðtökurnar svo góðar að ákveðið var að keyra bandið áfram. Síðan þá hafa þeir komið reglulega fram og fengið góðar viðtökur.
Dagur Sigurðsson söngvari bandsins á langan feril að baki þrátt fyrir ungan aldur og byrjaði að syngja blúsinn aðeins 15 ára gamall og 18 ára gamall tók hann þátt í Blúshátíð Kópavogs undir stjórn Björns Thoroddsen. Undanfarið hefur hann komið fram í ýmsum uppfærslum með Rigg hópnum. Má þar nefna heiðurstónleika Meatloaf, U2 o.fl.
Í blúsbandinu eru frábærir tónlistarmenn. Það eru þeir Hjörtur Stephensen sem leikur á gítar af sinni alkunnu snilld. Rythmasveitina skipa svo Magnús Örn Magnússon á trommur og Steinþór Guðjónsson á bassa.
Laugardaginn 27. júní Menningarhúsið Tjarnarborg
Tónleikarnir hefjast kl. 21:00
Hljómsveitirnar Gæðablóð og South river band.
Gæðablóð skipa:
Eðvarð Lárusson, gítar, Magnús R. Einarsson, gítar, Tómas M. Tómasson Bassi, Jón Indriðason, trommur, Hallgrímur Guðsteinsson, slagverk, Kormákur Bragason gítar, söngur.
South river band skipa:
Helgi Þór Ingason; harmonikka, söngur. Mattías Stefánsson; fiðla, gítar. Ólafur Baldvin Sigurðsson; mandólín, söngur. Jón Kjartansson; bassi, gítar, söngur. Grétar Ingi Grétarsson; bassi, gítar, söngur: Kormákur Bragason; gítar, söngur.