Barnamenningardagar í Fjallabyggð

Barnamenningardagar Fjallabyggðar fóru fram í nýliðinni viku dagana 16. – 19. nóvember og tókust þeir afskaplega vel. 

Markmiðið með Barnamenningardögum er að efla menningarstarf barna, gefa þeim tækifæri til að kynnast flóru menningar og lista í samfélaginu og sem þátttakendur að rækta hæfileika sína til listsköpunar, veita þeim hvatningu til skapandi hugsunar og kynna þeim heim og umhverfi menningar og lista.

Dagskrá hátíðarinnar var fjölbreytt þar sem í boði voru meðal annars sköpunarsmiðjur/listsmiðjur, tónlist, fræðsla, ljóðlist, skapandi dans, fjöllistir og fleira fyrir börn og ungmenni í Fjallabyggð.

Á hátíðinni var leikskólabörnum boðið að heimsækja Síldarminjasafni. Þar hittu þau fyrir síldarstúlkur í Róaldsbrakka. Lesinn var kafli um síldarsöltun úr Sögu úr síldarfirði, rætt um störf síldarstúlkna og börnunum sýnd helstu áhöld sem þær notuðust við. Svo fengu þau auðvitað að skoða vistarverur stúlknanna á lofti hússins.

Ljóðasetur Íslands á Siglufirði bauð 1. – 2. bekk í heimsókn þar sem nemendur fengu fræðslu um íslenska ljóðlist, ljóðalestur og söng. Nemendur tóku einnig lagið og sungu lög sem þeir eru að æfa í skólanum við ljóð þjóðskáldanna Jónasar Hallgrímssonar og Þorsteins Erlingssonar. Heimsóknirnar voru einnig hluti af ljóðahátíðinni Haustglæður.

Sköpunarsmiðjur voru haldnar í Tjarnarborg í Ólafsfirði fyrir nemendur í 1. – 7. bekk grunnskólans undir leiðsögn Hólmfríðar Vídalín Arngrímsdóttur (Hófý) og Guðrúnar Þórisdóttur (Garún).
Hófý vann með börnunum við að skapa kynjaskepnur himins og hafs úr leir. Hjá Garúnu unnu börnin með það efni sem sjórinn ber að landi. grjót, skeljar, þang og spýtur. Börnin fengu frelsi til að skapa og láta hugmyndaflugið ráða för og úr urðu stórfenglegir skúlptúrar. Afrakstur vinnustofunnar verður svo til sýnis fyrsta sunnudag í aðventu 28. nóvember í ráðhússalnum.

Efnt var til ljóðasamkeppni nemenda í 8.  - 10. bekk þar sem ort var út frá listaverkum eftir nemendur MTR og var þar um samvinnuverkefni Ljóðaseturs og MTR að ræða.

Nemendur á unglingastigi unnu málverk eftir annarri fyrirmynd þar sem hugmyndaauðgi fékk að ráða för og óhætt að segja að afraksturinn hafi verið skemmtilegur. 

Á bókasafninu á Siglufirði var börnum boðið að koma í heimsókn og vinna við gerð músastiga, lita jólamyndir og spila Olsen Olsen.

Dansstúdíóið bauð upp á opnar æfingar í skapandi dans fyrir börn í 1. til 7. bekk. Kennarar voru Lea og Sylvie.
40 börn sóttu æfingarnar, mörg hver sem nú þegar stunda nám í Dansstúdíóinu. Áhersla var lögð á líkamshreyfingar af ýmsu tagi og að finna sinn innri dansstíl. Vel tókst til og vill stúdíóið endilega bjóða upp á fleiri viðburði í framtíðinni. Dansstúdíóið býður upp á ýmis konar æfingar í sviðslistum, eins og jazzdansæfingar, skapandi dans, freestyle, listdans og leikhúsgerð. Nemendasýning er sett upp á hverri önn þar sem nemendur fá að spreyta sig. Þessa önnina verður sýningin partur af Barnamenningardögum og mun fara fram í Tjarnarborg þann 9. desember kl. 17:30. Þema sýningarinnar verður söngleikurinn "Annie" þar sem allir hópar Dansstúdíósins koma fram eða um 60 nemendur úr 1. til 10. bekk.

Tríó Zimsen kom með tónleika fyrir grunnskólann.
Nemendum grunnskólans var boðið upp á tónleika með Tríó Zimsen sem skipað er systkinunum, Iðunni Helgu, 15 ára, Grétu Petrínu, 13 ára og Jóhannesi Jökli 9 ára. Systkinin komu fram ásamt foreldrum þeirra, Rósu Jóhannesdóttur og Helga Zimsen. Kveðnar voru vísur eftir m.a. Helga Zimsen og Látra-Björgu, leikið á Ukulele, harmonikku og fiðlu og sungnar dægurperlur og hjartfólgin, skemmtileg lög.

Í október sl. var Húlladúllan með fjölskyldusirkushelgi í boði fyrir sirkusunnendur í Fjallabyggð. Dagskráin var sérsniðin að hópi á breiðu aldursbili þar sem boði var að æfa allra handa sirkuslistir, loftfimleika fyrir byrjendur, leiki og hópefli.

Fjallabyggð og skipuleggjandi hátíðarinnar, markaðs- og menningarfulltrúi þakkar þeim fjölmörgu sem lögðu hátíðinni lið, án ykkar hefði hátíðin ekki orðið að veruleika.

 

Myndir frá hátíðinni