Bæjarstjórn samþykkir að styrkja björgunarsveitirnar Stráka og Tind

Í óveðri liðinnar viku gegndu Björgunarsveitin Strákar á Siglufirði og Björgunarsveitin Tindur í Ólafsfirði lykilhlutverki í viðbragðsaðgerðum. Liðsmenn sveitanna stóðu vaktina dag og nótt.  Þarna eru okkar sérfræðingar sem hafa kunnáttu til að takast á við erfiðar aðstæður og eru vel tækjum búnir. Í aðstæðum sem slíkum eru Björgunarsveitirnar okkar lykilaðilar.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar þakkar enn og aftur Björgunarsveitunum Tind og Strákum af heilum hug fyrir þeirra dýrmæta sjálfboðaliðastarf í þágu samfélagsins á ögurstundum.

Í bókun bæjarráðs frá 20. desember 2019 segir: Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur ákveðið að styrkja björgunarsveitirnar Stráka og Tind um kr. 1.500.000 hvora sveit. Bæjarstjórn þakkar enn og aftur björgunarsveitunum fyrir mikið og óeigingjarnt starf við björgunarstörf á meðan að óveðrið gekk yfir.