Auglýst er eftir umsóknum frá félögum og félagasamtökum

Auglýst er eftir umsóknum frá félögum og félagasamtökum um styrk til greiðslu fasteignaskatts. Umsóknarfrestur er til 11. mars 2009.


Í reglum Fjallabyggðar um styrk til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka segir m.a.:

 1. gr. - Sveitarstjórn Fjallabyggðar er heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar,- íþrótta,- æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf sbr. heimild í 2.mgr. 5.gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

3. gr.  - Sækja skal um styrk til greiðslu fasteignaskatts á eyðublöðum sem skulu liggja frammi á skrifstofu Fjallabyggðar og vera aðgengileg á vefsvæði sveitarfélagsins. Með umsóknum um styrki skal fylgja:
a) Nýjasti ársreikningur félagsins.
b) Lög viðkomandi félags þar sem fram koma markmið þess.
c) Stutt greinargerð um starfsemi félagsins.

4. gr. - Rétt til styrks eiga félög og félagasamtök sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
a) Eru fasteignaeigendur í Fjallabyggð.
b) Reka starfsemi sína í því húsnæði sem um ræðir sbr. 1.gr. reglna þessara, með þeim undantekningum sem greinir í 5.gr.
c) Starfa á sviði menningar-, íþrótta-, tómstunda- eða góðgerðarmála og/eða mannúðarstarfa, og eru rekin í almannaþágu eða í þágu æskulýðs. Um mannúðarsamtök gildir að góðgerðarstarfsemi verður að mestu að vera unnin í sjálfboðavinnu félagsmanna og ná út fyrir raðir þeirra, s.s. í formi styrkja, gjafa eða stuðnings fyrir almannaheill og samfélagið.
d) Eru ekki rekin í ágóðaskyni. Þó er heimilt að innheimta tímabundnar tekjur fyrir notkun húsnæðisins sbr. 5.gr. reglna þessara.

5. gr. - Styrkur til greiðslu fasteignaskatts skal nema álögðum fasteignaskatti.
Sé fasteign félags jafnframt notuð til annars en að framan greinir, svo sem til veitinga- eða verslunarreksturs eða til íbúðar fyrir aðra en húsverði, skal fjárhæð styrksins ákvörðuð í réttu hlutfalli við styrkhæfa starfsemi í húsinu m.v. virka notkun þess. Eigi félag sem uppfyllir skilyrði fyrir styrkhæfi hluta af eign, skal fjárhæð styrksins miðast við eignarhluta þess. Sé húsnæðið eða hluti þess leigt út tímabundið eða hluti þess í fastri útleigu skal styrkveiting takmarkast hlutfallslega sem því svarar.

Umsóknum skal skilað á bæjarskrifstofurnar, eða þær sendar á neðangreind heimilisföng:
Fjallabyggð, Gránugötu 24, 580 Siglufirði, eða Fjallabyggð, Ólafsvegi 4, 625 Ólafsfirði.

Fjallabyggð 20. febrúar 2009
Skrifstofu- og fjármálastjóri

Hægt er að finna reglurnar í heild hér: