Önnur af vinningstillögunum í nýsköpunarsamkeppninni Ræsing í Fjallabyggð er verkefnið Arctic Bow Boats. Á bak við hugmyndina standa Sæunn Tamar Ásgeirsdóttir og Sigtryggur Antonsson. Þetta hafa þau að segja um verkefnið:
Út á hvað gengur viðskiptahugmyndin í stuttu máli?
Við ætlum okkur að byrja að bjóða uppá afþreyingaferðir frá Ólafsfirði til Grímseyjar sumarið 2017. Grímsey hefur verið þó nokkuð kynnt fyrir erlendum ferðamönnum og er mjög áhugaverður staður fyrir það sakir að heimskautsbaugur liggur yfir eyjuna. Ferðamönnum mun því bjóðast að komast norður fyrir heimskautsbaug og fá það sérstaklega vottað. Farið verður úr höfn frá Ólafsfirði á nokkuð hraðskreiðum bát en báturinn sjálfur auk staðreyndarinnar að úr höfn í höfn er styðst að sigla frá Ólafsfirði til Grímseyjar, gerir það að verkum að sjóferðin til og frá eyjunni verður rúmlega helmingi styttri en almennar bátasamgöngur í dag. Í ferðunum munu gestir fá ómetanlega upplifun af mikilli náttúrufegurð Íslands bæði í siglingunni sjálfri og með göngu um Grímsey. Til viðbótar er fjölskrúðugt fuglalíf á þessum slóðum en eyjan hýsir sérstaklega mikið af lundum en þá er einnig ekki ósennilegt að verða var við hvali og höfrunga á leiðinni til og frá eyjunni. Með í ferðinni verða svo leiðsögumenn sem sjá um ýmsar aðrar skemmtilegar uppákomur svo sem að segja sögur um svæðið, bjóða þeim sem hafa áhuga að skjóta golfkúlu yfir heimskautsbaug og hvað eina annað sem mun gera ferðina skemmtilegri og upplifunina meiri.
Hvers vegna ákváðuð þið að taka þátt?
Ákveðið var að taka þátt í nýsköpunarkeppninni Ræsing í Fjallabyggð til að sjá hvort viðskiptahugmyndin væri eins góð eins og við töldum hana vera og fá þá þessa staðfestingu fyrir því. Í þessari keppni, sem og öðrum nýsköpunarkeppnum, fer dómnefnd af fagfólki yfir viðskiptahugmyndina og viðskiptaáætlunina auk þess sem nefndin metur hvort raunhæft er að verkefnið verði að veruleika eða ekki. Þannig er niðurstaðan úr keppninni ákveðin staðfesting verkefnið er nægilega vel undirbúið til þess að fara á fullt í að finna það fjármagn sem upp á vantar.
Keppnir sem þessar eru einnig góð leið til að setja pressu á verkefnið, þar sem það þarf augljóslega að ljúka við gerð viðskiptaáætlunarinnar innan ákveðins tímafrests (e. deadline).
Hvaða þýðingu hafa þessi verðlaun fyrir ykkur?
Verðlaunin auka líkurnar á að við náum að fjármagna viðskiptahugmyndina og þar með auka þau líkurnar á að hugmyndin verði að veruleika. Það kann að þykja kostnaðarsamt að láta smíða bát og gera hann út og almennt eru ekki í boði lán fyrir nema hluta af því fjármagni sem þarf til að tryggja reksturinn, því er allur svona meðbyr með verkefninu mjög jákvæður og ætti að auka áhuga fjárfesta fyrir verkefninu.
Fjallabyggð óskar þeim Sæunni og Sigtryggi til hamingju með hugmyndina og verðlaunin sem og öllum öðrum þátttakendum með von um að þau verði sem flest að veruleika.
Báturinn sem fyrirhugað er að nota í ferðirnar.