Alþýðuhúsið á Siglufirði
Sex ólík menningarverkefni á landsbyggðinni hafa verið valin á Eyrarrósarlistann 2017 og eiga þar með möguleika á að hljóta Eyrarrósina í ár og er Alþýðuhúsið á Siglufirði undir stjórn Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur eitt af þeim. Alls bárust 37 umsóknir um Eyrarrósina, hvaðanæva af landinu.
Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Hún beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík. Forsetafrúin Eliza Reid, nýr verndari Eyrarrósarinnar, mun afhenda verðlaunin 16. febrúar næstkomandi við athöfn í Verksmiðjunni á Hjalteyri, sem er handhafi Eyrarrósarinnar frá síðasta ári.
Eftirtalin verkefni koma til greina:
Alþýðuhúsið á Siglufirði
Í Alþýðuhúsinu á Siglufirði er rekið metnaðarfullt menningarstarf allan ársins hring, með áherslu á myndlist, undir stjórn Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Þar eru einnig með jöfnu millibili haldnir tónleikar, fyrirlestrar og menningarviðburðir af ýmsum toga. Reglulega er listamönnum boðið að dvelja þar í skemmri tíma við eigin vinnu. Fastir viðburðir á dagskrá Alþýðuhússins eru til dæmis menningardagur barna, gjörningahátíð, sunnudagskaffi með skapandi fólki, Reitir og fleira. Í ár fagnar Alþýðuhúsið fimm ára afmæli og heldur upp á það með veglegri afmælisdagskrá næsta sumar.
Eistnaflug, Neskaupstað
Eistnaflug er rótgróin tónlistarhátíð sem haldin er í Neskaupstað aðra helgina í júlí ár hvert. Eistnaflug er eina tónlistahátíðin hér á landi þar sem höfuðáhersla er lögð á þungarokk og aðrar jaðartónlistarstefnur. Margar af þekktustu þungarokkssveitum heims hafa komið fram á hátíðinni en hátíðin styður líka við bakið á ungum og upprennandi hljómsveitum og hefur rutt veginn fyrir íslenskar sveitir á erlendum útgáfu- og tónleikamarkaði. Skipuleggjendur eru stoltir af góðu orðspori Eistnaflugs sem „rokkhátíðar sem fer fram í bróðerni og samstöðu“. Um 50 rokksveitir munu koma fram á Eistnaflugi 2017.
List í ljósi, Seyðisfirði
List í ljósi er í vetur haldin á Seyðisfirði í annað sinn, en henni er ætlað að verða að árlegum viðburði. Rík áhersla er lögð á samfélagsleg áhrif hátíðarinnar sem fer fram utandyra. Geta allir, ungir sem aldnir, tekið þátt í hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Á meðan á hátíðinni stendur er Seyðisfjarðarkaupstað umbreytt með ljósadýrð og spennandi listaverkum. Áhorfendur, sem um leið eru þátttakendur, upplifa á magnaðan hátt ýmis listaverk, allt frá innsetningum og vídeóverkum til stærri ljósaskúlptúra. Innlendir og erlendir listamenn taka þátt í hátíðinni sem bókstaflega lýsir upp Seyðisfjörð. Markmið hátíðarinnar er að styðja við menningarlíf Austurlands á lágönn og fagna komu sólar eftir þrjá langa og sólarlausa mánuði.
Rúllandi snjóbolti, Djúpavogi
Í gömlu Bræðslunni á Djúpavogi hefur alþjóðlega samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti verið haldin árlega frá árinu 2014 og styrkir stöðu sína með hverju ári. Um er að ræða eftirtektarvert og afar metnaðarfullt samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center). Á sýningunni síðastliðið sumar áttu 32 íslenskir og erlendir listamenn verk á sýningunni og þannig er um að ræða eina stærstu samtímalistasýningu ársins hérlendis. Aðgangur á sýninguna var ókeypis og nutu bæði Austfirðingar og ferðamenn góðs af.
Nes, Skagaströnd
Nes – listamiðstöð á Skagaströnd var stofnuð árið 2008 og hefur verið rekin þar allar götur síðan. Fjölmargir listamenn hafa dvalið á Skagaströnd frá opnun listamiðstöðvarinnar en þar er rými fyrir allt að 12 til15 listamenn í einu. Flestir kjósa að dvelja þar einn til tvo mánuði í senn.
Mánaðarlegir viðburðir eru í listamiðstöðinni með virkri þátttöku heimamanna. Listamiðstöðin Nes hefur haft áhrif á nærsamfélag sitt og gefið íbúum á öllum aldri og gestum tækifæri til að kynnast fjölbreyttri listsköpun, bæði sem áhorfendur og sem virkir þátttakendur.
Vesturfarasetrið, Hofsósi
Vesturfarasetrið hefur verið starfrækt frá 1996 og er megintilgangur setursins að viðhalda og efla tengsl fólks af íslenskum ættum sem búsett er í Kanada og Bandaríkjunum og vill leita uppruna síns á Íslandi. Jafnframt aðstoðar Vesturfarasetrið Íslendinga í leit sinni að ættingjum í Vesturheimi. Markmið Vesturfarasetursins er að efla enn frekar áhuga fólks af íslenskum ættum á uppruna sínum og frændgarði á Íslandi. Fjölmargar sýningar hafa verið settar upp í húsnæði Vesturfarasetursins á Hofsósi sem eru allar til þessa fallnar að varpa ljósi á söguna og minnast þeirra fjölmörgu sem yfirgáfu Ísland í leit að betra lífi á seinni hluta 19. aldar og í upphafi þeirra 20.