Mynd: Aðsend
Þriðjudaginn 30. júlí kl. 21.00 verða systkinin Mikael Máni og Lilja María Ásmundsbörn með tónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Húsið opnar kl. 20.45 og er tekið við frjálsum framlögum við innganginn.
Uppbyggingarsjóður/Eyþing, Fjallabyggð, Norðurorka, Menningarsjóður Siglufjarðar og Aðalbakarí styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Systkinin Mikael Máni Ásmundsson og Lilja María Ásmundsdóttir skipa dúóið Innri felustaður en þau munu halda í tónleikaferðalag í lok júlí þar sem nýtt íslenskt verk verður flutt á mismunandi stöðum á Íslandi.
Tónleikaferðalagið mun hefjast þann 27. júlí á Ólafsfirði. Síðan verður ferðast um Norðurland og spilað á Siglufirði, Akureyri og Mývatni en lokatónleikarnir verða þann 9. ágúst í Reykjavík.
Í tónsmíðum sínum blanda systkinin saman bakgrunni sínum í jazz tónlist og sígildri samtímatónlist. Tónlistin mætti því teljast tilraunakennd, eins konar leit að nýjum blæ sem þau vinna út frá mismunandi tónlistarstefnum.
Verkefnið kviknaði út frá samstarfsverkefni sem þau unnu sumarið 2018 í tengslum við mastersverkefni Lilju Maríu þar sem þau rannsökuðu náið samstarf milli tónskálds og flytjanda. Vildu þau gera frekari tilraunir með þessa tegund af sköpunarferli með því að semja verk fyrir hvort annað þar sem línurnar á milli tónskáldsins og flytjandans verða óljósari. Sterkur rammi er búinn til utan um verkin en vegna vinnuaðferða þeirra má greina ákveðin einkenni spuna sem gerir tónlistina mjög lifandi.
Fyrir tónleikaferðalagið vinna systkinin að því að semja verk í 14 köflum þar sem þau styðjast við sögu í þjóðsagnakenndum stíl sem þau skrifuðu saman í fyrra en hún mun einungis birtast áheyrendum í gegnum tóna og hljóð. Köflunum í verkinu mætti skipa í tvo bálka. Annars vegar vinna þau með karakatereinkenni og hugarástand ákveðinnar manneskju og hinsvegar vinna þau með andrúmsloft sögunnar.
Dúóið mun nota fjölbreytta hljóðfæraskipan til að ná fram mismunandi litum. Mikael Máni spilar á rafgítar, spiladós og syngur en Lilja María spilar á píanó, fiðlu og syngur. Auk þess stýrir hún rafi sem blandast saman við hljóðheim hljóðfæranna en það er m.a. unnið úr umhverfishljóðum, gamelan hljóðfærum, heimagerðum spiladósum og frumgerð hljóð- og ljósskúlptúrsins Huldu sem er hugarsmíð Lilju Maríu.
Fréttin er aðsend.