Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa, sunnudaginn 15. nóvember 2020

Mynd: Samgöngustofa
Mynd: Samgöngustofa

Árlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn hátíðlegur sunnudaginn 15. nóvember 2020. Dagurinn er haldinn til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni en ekki hvað síst til að þakka þeim viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun.

Í ár verður minningardagurinn sniðinn að sérstökum aðstæðum í samfélaginu og verður m.a. sérstakt árvekniátak í samfélaginu um umferðaröryggi dagana 13.-15. nóvember. Einkennislag dagsins verður flutt samtímis á öllum útvarpsstöðvum á minningardaginn kl. 14:00, lag KK; When I think of angels, og eru landsmenn hvattir til einnar mínútu þagnar. Forseti Íslands mun ávarpa þjóðina í sérstöku myndbandi sem deilt verður m.a. á vefmiðlum. Kl. 19:00 á minningardaginn mun verða sýnt í beinni vefútsendingu á Facebook frá táknrænum minningarathöfnum eininga Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, ásamt fleiri viðbragsaðilum.

Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að kveikja á friðarkertum þennan dag.

Hér er hægt að lesa meira um alþjóðlega minningardaginn á heimasíðu Samgöngustofu en þar er m.a. að finna kveðju frá forseta Íslands.

Auglýsing á pdf.