Vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er hafin og hefur verið opnað sérstakt vefsvæði tileinkað vinnunni á slóðinni www.co2.is. Almenningur er hvattur til að senda hugmyndir og tillögur að aðgerðum til verkefnisstjórnar á netfangið loftslag@uar.is
Ætlunin er að birta jafnóðum á vefsvæðinu þær tillögur sem berast en þar er einnig að finna ýmsar upplýsingar er tengjast vinnunni við aðgerðaáætlun.
Athugið að allar innsendar tillögur og hugmyndir verða birtar undir nafni sendanda og því þarf fullt nafn sendanda að koma fram í tölvupóstinum.
Meginverklag við birtingu er að birta bæði yfirskrift tölvupósts og efni hans eins og það kemur frá sendanda.
Ráðuneytið áskilur sér rétt til að birta ekki efni sem er meiðandi eða óviðeigandi á annan hátt.
Allar nánari upplýsingar er að finna á www.co2.is.
Nánar um verkefnið:
Vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum miðar að því að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar skv. Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030. Áætlunin á að liggja fyrir í lok árs 2017.
Sex ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skrifuðu undir viljayfirlýsingu um gerð áætlunarinnar en vinnan er leidd af forsætisráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Með áætluninni er stefnt að því að setja fram aðgerðir sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti.
Sérstök verkefnisstjórn og sex faghópar vinna áætlunina, en við vinnu aðgerðaáætlunarinnar er áhersla lögð á samráð við haghafa og að sjónarmið og tillögur komi frá aðilum utan stjórnkerfisins. Í því augnmiði er starfandi samráðsvettvangur þar sem eiga sæti fulltrúar haghafa og flokka í minnihluta á Alþingi en auk þess er almenningur hvattur til að senda inn hugmyndir og tillögur að aðgerðum í gegn um netfangið loftslag@uar.is