Afmörkun deiliskipulags hafnarsvæðis í Ólafsfirði
Í ágúst 2020 samþykkti hafnarstjórn Fjallabyggðarhafna að láta vinna deiliskipulag á hafnarsvæðinu í Ólafsfirði og er vinna við skipulagið nú að hefjast. Nýju deiliskipulagi er ætlað taka mið af núverandi starfsemi hafnarinnar sem og þróunarmöguleikum svæðisins í takt við breytta tíma. Í skipulagsvinnunni verður leitast við að efla hafnarsvæðið með því að skapa umgjörð sem draga mun að sér starfsemi sem tengist höfninni auk þess að gera svæðið aðgengilegra og eftirsóknarverðara fyrir íbúa og ferðafólk. Deiliskipulagið verður unnið á tæknideild Fjallabyggðar.
Á dögunum var svo gengið frá samkomulagi við Vegagerðina vegna gerðar deiliskipulags fyrir þjóðvegina í gegn um þéttbýli í Ólafsfirði og á Siglufirði. Verkfræðistofan Mannvit hefur, að undangenginni verðkönnun, verið ráðin sem skipulagsráðgjafi við vinnslu deiliskipulagstillagnanna. Á Ólafsfirði nær skipulagið til Múlavegar og Aðalgötu en á Siglufirði til Snorragötu, Túngötu, Hvanneyrarbrautar, Gránugötu og Tjarnargötu. Markmið deiliskipulagsgerðarinnar er að tryggja sem best umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og ásýnd gatna og aðliggjandi svæða. Deiliskipulagsvinnan nær til endurskoðunar göturýma, gatnamóta, gangstétta, gönguþverana, innkeyrslna, og nánasta umhverfis allt með umferðaröryggi að leiðarljósi.
Á vinnslutíma munu deiliskipulagstillögurnar verða kynntar eftir því sem vinnu við þær vindur fram, kynning mun fara fram á heimasíðu sveitarfélagsins, með auglýsingum í prentmiðlum og opnum fundum með íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.
Klikkið á myndina til að stækka.
Afmörkun deiliskipulags hafnarsvæðis í Ólafsfirði