Skerandi barnsgrátur sem barst að utan vakti athygli starfsmanna bæjarskrifstofu Fjallabyggðar í Ólafsfirði. Þar sem grátinum linnti ekki fóru starfsmenn af stað til að athuga með aumingja barnið.
Þegar út var komið fundu starfsmenn ungan örvæntingarfullan föður sem skildi ekkert hvað var að gerast því honum hafði verið lofað að barnið myndi ekki vakna fyrr en kl. 19:00.
Þarna var á ferð nemandi í 10. bekk Grunnskóla Ólafsfjarðar sem um helgina tekur þátt í forvarnarverkefninu „Hugsað um barn“.
„Hugsað um barn“ er alhliða forvarnarverkefni um lífstíl unglinga sem hjálpar þeim að taka upplýsta ákvörðun varðandi kynlíf, áfengi, mikilvægi þess að standa sig í námi og góðri samvinnu við foreldra. Skólaverkefnið gengur út á það að börnin fá raunveruleiknibarn með sér heim yfir helgi og þeim ber að hugsa um barnið og sinna öllum þörfum þess allan sólarhringinn, frá föstudegi til mánudagsmorguns. Fyrst er haldinn fundur með foreldrum barnanna og þau sett inn í málið en einnig eru foreldrar fræddir um unglingauppeldi.
Það er mat Landlæknisembættisins að hér sé um að ræða nýstárlega útfærslu á fræðslu um kynlíf og barneignir sem muni höfða til unglinga. Embættið telur að þessi fræðsla eigi að vera á ábyrgð skólaheilsugæslunnar og mun mæla með henni sem einni leið til að fræða nemendur um kynlíf og ábyrgð foreldrahlutverksins Það er Rauðakrossdeild Ólafsfjarðar sem gerir unglingum Ólafsfjarðar kleift að taka þátt í verkefninu.