Hanna Maronsdóttir klippir á borðann
Mynd: Fjallabyggð
550 rampur Íslands vígður við Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar í Ólafsfirði.
Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar í Ólafsfirði fékk þann heiður að fá ramp númer 550 í verkefninu ,,Römpum upp Ísland“. Vígsla rampsins fór fram í dag, miðvikudaginn 31. maí við Íþróttamiðstöðina. Við vígsluna sagði Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri Fjallabyggðar nokkur orð og þakkað Haraldi Þorleifssyni og hans teymi fyrir frábært framtak. Að því búnu fékk Hanna Maronsdóttir heldri-borgari og íbúi í Ólafsfirði það verðuga hlutverk að klippa á borðann og vígði rampinn þar með formlega. Fjallabyggð bauð svo gestum upp á léttar veitingar í anddyri íþróttamiðstöðvarinnar.
Nokkrar eldhressar sundkonur, sem voru á leið í síðasta sundleikfimitíma vetrarins tóku þátt í vígslunni og voru þær að vonum ánægðar með rampinn og að Fjallabyggð sé að hefja þá vinnu að bæta enn frekar aðgengi að sundlauginni en þegar hefur verið farið í endurnýjun á búningsklefum og sturtum og lagfæringar á heitum pottum sundlaugarsvæðisins.
Römpum upp Ísland
,,Römpum upp Ísland“ er verkefni sem miðað að því að setja upp 1500 rampa á næstu 4 árum um land allt. Stofnaður var sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem munu standa straum af kostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu. Framlag ríkisins nemur 200 milljónum kr. á tímabilinu. Álíka upphæð mun renna inn í verkefnið frá einkaaðilum og sveitarfélögum.
Með römpunum er öllum gert kleift að komast á þægilegan hátt inn á veitingastaði og verslanir á landinu öllu. Verkefnið verður framkvæmt í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvalda.
Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins.