Fjölbreytt hátíðardagskrá verður í Fjallabyggð á þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Í Ólafsfirði, við Menningarhúsið Tjarnarborg verður stórglæsileg hátíðardagskrá klukkan 14:00 og er það fræðslu- og menningarnefnd slökkviliðsins í Ólafsfirði sem hefur veg og vanda að hátíðardagskránni á hverju ári. Í boði verða m.a. hátíðarræða, Fjallkonan, tónlist, leiktæki, hoppukastalar, geimsnerill, sölutjöld og fleira fyrir alla fjölskylduna. Á Kaffi Klöru mun Ida Semey opna eigin sýningu, Flæði og verður sýningin opin á opnunartíma Kaffi Klöru milli 10:00 og 17:00 fram til 15. júlí. Hinn árlegi hátíðarbrönch verður einnig á Kaffi Klöru frá kl. 11:00-13:30. Í Pálshúsi verður sýning Péturs Magnússonar opin frá kl. 14:00 til 17:00 en sýningin var opnuð þann 15. maí og stendur til 24. júní nk.
Á Siglufirði verður hátíðarathöfn kl. 12:00 við Siglufjarðarkirkju en þar mun m.a. nýstúdent Jón Pétur Erlingsson, leggja blómsveig að minnisvarða sr. Bjarna Þorsteinssonar. Að athöfn lokinni eru gestir hvattir til að ganga að Þjóðlagasetri sr. Bjarna þar sem boðið verður upp á kaffi og með því allan daginn en opið verður á setrinu til kl. 18:00. UMF Glói verður með árlegt 17. júní hlaup á Malarvellinum á Siglufirði fyrir börn á fædd 2010-2015 og hefst hlaupið kl. 11:00. Sýning Ívars Valgarðssonar verður opin í Kompunni í Alþýðuhúsinu frá kl. 14:00-17:00 en sýningin var formlega opnuð þann 6. júní sl. og mun hún standa til 26. júní. Opið verður í anddyri Alþýðuhússins, þar sem ýmsir skúlptúrar og vörur verða til sölu og sýnis. Einnig verður fatamarkaður við húsið kl. 17:00. Hin árlega sumarsýning Ljósmyndasögusafnsins Saga-Fotografica verður formlega opnuð með sýningu ljósmyndarans Rutar Hallgrímsdóttur. Elstu myndirnar á sýningunni eru frá 1985 en þær nýjustu teknar á þessu ári. Opið verður á Ljósmyndasafninu þennan dag frá kl. 13.00-17:00 en safnið verður opið alla daga í sumar frá kl. 13:00-16:00. Ljóðasetur Íslands verður opið milli 14:00-17:00 og þar mun Þórarinn Hannesson flytja eigin lög við ljóð eftir Siglfirðinga kl. 16:00. Í Ráðhússalnum veður samsýning eldri listamanna í Fjallabyggð, Sólstafir, opnuð kl. 13:00 og mun Páll Helgason lesa upp eigin ljóð kl. 14:00. Sýningin verður opin alla virka daga milli 13:00 og 16:00 fram til 27. júní. Slökkvilið Fjallabyggðar verður með opið hús milli kl. 13:00-16:00 þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri til að skoða tæki slökkviliðsins og Síldarminjasafnið verður einnig opið milli kl. 10:00-18:00.
Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að mæta og fagna þessari hátíðarstund saman
Dagskrá 17. júní í Fjallabyggð (pfd)