Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar

257. fundur 26. ágúst 2020 kl. 16:30 - 18:30 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Hjördís Hanna Hjörleifsdóttir varaformaður, D lista
  • Brynja Ingunn Hafsteinsdóttir aðalmaður, D lista
  • Helgi Jóhannsson aðalmaður, H lista
  • Nanna Árnadóttir formaður I lista
  • Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir varamaður, I lista
Starfsmenn
  • Ármann Viðar Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar
Fundargerð ritaði: Ármann Viðar Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar

1.Umsókn um hliðrun byggingarreits-Skógarstíg 2 Siglufirði

Málsnúmer 1905037Vakta málsnúmer

Lögð fram breyting á deiliskipulagi fyrir Saurbæjarás þar sem byggingarreit fyrir Skógarstíg 2 er hliðrað til um 10 metra til suð-austurs.
Meðfylgjandi er uppdráttur sem sýnir deiliskipulagsbreytinguna.
Að mati nefndarinnar er um óverulega breytingu að ræða og samþykkir að vísa breytingartillögunni í grenndarkynningu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Lagt er til að breytingartillagan verði kynnt fyrir öðrum eigendum frístundahúsa á Saurbæjarási.

2.Umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2007025Vakta málsnúmer

Með umsókn dagsettri 13. júlí 2020 óskar Ásgeir Rúnar Harðarson eftir byggingarleyfi fyrir frístundahúsi að Lambavöllum Siglunesi 3 í Siglufirði. Meðfylgjandi eru aðaluppdrættir og skráningartafla.
Erindi samþykkt.

3.Umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2008038Vakta málsnúmer

Með erindi dagsettu 20. ágúst 2020 óskar Tómas Atli Einarsson eftir leyfi til þess að stækka glugga á norðurhlið hússins Tröllakots í Ólafsfirði og að fá að klæða húsið og bílskúr með bárujárni.
Erindi samþykkt.

4.Niðurrif á fjárhúsum að Bakka í Ólafsfirði

Málsnúmer 2008015Vakta málsnúmer

Með tölvupósti, dagsettum 13. ágúst 2020, óskar Eyþór Eyjólfsson eftir leyfi til þess að rífa 122,9 fm fjárhús að Bakka í Ólafsfirði, en þau eru orðin fúin og ólíkleg til að standa af sér annan vetur.
Erindi samþykkt.

5.Ósk um leyfi til niðurrifs á sumarhúsi

Málsnúmer 2007041Vakta málsnúmer

Með erindi dagsettu 28. júlí 2020 óskar Finnur Óskarsson eftir leyfi til þess að rífa gamalt frístundahús á lóð sinni að Reykjum í Ólafsfirði.
Erindi samþykkt.

6.Umsókn um leyfi fyrir svölum að Aðalgötu 19 á Siglufirði

Málsnúmer 2008026Vakta málsnúmer

Með bréfi, dagsettu 6. ágúst 2020, óskar Ragnar Már Hansson eftir leyfi til að fá að setja svalir á suðurhlið Aðalgötu 19 á Siglufirði og brunastiga frá 2. hæð. Meðfylgjandi er umsögn Minjastofnunar Íslands sem tók jákvætt í erindið.
Nefndin samþykkir erindið með fyrirvara um að skriflegt samþykki berist frá aðliggjandi lóðarhöfum fyrir svölunum.

7.Umsókn um stöðuleyfi

Málsnúmer 2008033Vakta málsnúmer

Með umsókn, dagsettri 21. ágúst 2020, óskar Sóti Travel ehf. eftir stöðuleyfi fyrir 20 feta gám á Óskarsbryggju á Siglufirði.
Erindi samþykkt.

8.Umsókn um stöðuleyfi fyrir gám

Málsnúmer 2008009Vakta málsnúmer

Með umsókn, dagsettri 7. ágúst, óskar Sigurður Sigurjónsson eftir stöðuleyfi fyrir 40 feta gám á Óskarsbryggju á Siglufirði.
Nefndin samþykkir stöðuleyfi á gámasvæðinu við öldubrjót.

9.Múlavegur 13 - Ósk um stækkun á lóð

Málsnúmer 2008034Vakta málsnúmer

Með erindi, dagsettu 20. ágúst 2020, óskar Hjördís H. Hjörleifsdóttir fyrir hönd Múlatinds ehf. eftir stækkun á lóðinni að Múlavegi 13 í Ólafsfirði. Meðfylgjandi er uppdráttur að umbeðinni stækkun lóðarinnar.
Undir þessum lið vék Hjördís Hjörleifsdóttir af fundi.
Erindi samþykkt.

10.Bleyta í lóðum við Hafnartún 8 og 10 Siglufirði

Málsnúmer 2005056Vakta málsnúmer

Með bréfi dagsettur 13. júlí 2020 óskar Sóley Reynisdóttir fyrir hönd eigenda Hafnartúns 8 og 10 á Siglufirði eftir því að aftur verði fjallað um erindi þeirra vegna bleytu í lóðum þar sem þau telja fyrri afgreiðslu nefndarinnar byggða á misskilningi.
Nefndin leggur til að tæknideild fari yfir tilhögun og verklag í sambandi við snjómokstur með tilliti til snjósöfnunar á auðum lóðum.

11.Klára að fjarlægja skúr

Málsnúmer 2007035Vakta málsnúmer

Með rafpósti, dagsettum 22. júlí 2020, fer Hlynur J. Arndal fram á það að klárað verði að rífa gamlan hænsnakofa við Suðurgötu á Siglufirði. Meðfylgjandi er mynd af veggnum sem eftir er.
Nefndin felur tæknideild að vinna að lausn málsins.
Fylgiskjöl:

12.Umferðaröryggi - Göngustígur á milli Laugavegs og Suðurgötu.

Málsnúmer 2007028Vakta málsnúmer

Með rafpósti dagsettum 14. júlí 2020 lýsir Gurrý Anna Ingvarsdóttir yfir áhyggjum sínum vegna blindhorna við göngustíg sem er á milli Laugavegs og Suðurgötu á Siglufirði. Óskar hún eftir því að það verði skoðað hvort ekki sé hægt að fara í úrbætur til að bæta öryggi. Meðfylgjandi eru myndir af umræddum blindhornum.
Nefndin þakkar fyrir góða ábendingu og felur tæknideild úrlausn málsins ef hún rúmast innan fjárheimilda þessa árs að öðrum kosti vísað til fjárhagsáætlunar 2021. Einnig samþykkir nefndin að tæknideild skoði samskonar lausnir við aðra stíga innan þéttbýliskjarnanna.

13.Fyrirspurn vegna breytinga á hámarksumferðarhraða

Málsnúmer 2008024Vakta málsnúmer

Með rafpósti dagsettum 18. ágúst 2020 óskar Jón Hrólfur Baldursson eftir rökum fyrir þeirri ákvörðun nefndarinnar að hækka hámarksumferðarhraða á þjóðveginum í gegn um þéttbýlið á Siglufirði úr 35 upp í 40 km/klst. þrátt fyrir að íbúar hafi ítrekað lýst yfir áhyggjum vegna hraðaksturs.
Umferðarlög tóku breytingum um síðustu áramót þar sem segir að umferðarhraði verði að standa á heilum tug. Nefndin tók þá ákvörðun að leggja til við Vegagerðina að hámarkshraði á þjóðvegi í þéttbýli verði 40 km/klst. Samhliða þeirri ákvörðun var ákveðið að gert yrði deiliskipulag af þjóðveginum í þéttbýli í samstarfi við Vegagerðina með umferðaröryggi og stýringu á umferðarhraða í huga. Nefndin bendir á að við vinnslu deiliskipulags þá gefst íbúum kostur á að gera athugasemdir og koma með ábendingar.

14.Göngustígur við Ólafsfjarðarvatn

Málsnúmer 1806074Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar þar sem farið er yfir stöðu framkvæmdarinnar. Stígurinn mun liggja yfir land þar sem lóðarleigusamingur er til staðar og lóðarhafi hefur líst sig mótfallin gerð stígsins. Óformlegar viðræður hafa átt sér stað og hafa ekki borið árangur.
Nefndin leggur til við bæjarráð að sá hluti lóðarinnar sem liggur vestan við Ólafsfjarðarveg verði yfirtekinn í samræmi við 8. gr. lóðarleigusamningsins.

15.Íþróttamiðstöðin á Siglufirði, viðbygging - Umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2005101Vakta málsnúmer

Á 255. fundi nefndarinnar þann 10. júní sl. var samþykkt að grenndarkynna fyrirhugaða viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina á Siglufirði. Grenndarkynning á framkvæmdinni hefur farið fram skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Frestur til að gera athugasemdir við hana var til 17. ágúst sl. Athugasemdir bárust frá fimm aðilum.
Lögð fram drög að svörum við þeim athugasemdum sem bárust.
Nefndin samþykkir framlögð drög að svörum við athugasemdum og felur tæknideild að svara. Nefndin samþykkir einnig útgáfu byggingarleyfis fyrir viðbyggingunni.

16.Aðalskipulag sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 - umsögn vegna vinnslutillögu

Málsnúmer 2008023Vakta málsnúmer

Með tölvupósti dagsettum 18. ágúst 2020 óskar Rúnar Guðmundsson skipulagsfulltrúi eftir umsögnum vegna vinnslutillögu aðalskipulags Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035. Meðfylgjandi eru drög að uppdrætti, greinargerð og umhverfisskýrslu.
Nefndin gerir ekki athugasemdir.

17.Bryggja í Hornbrekkubót

Málsnúmer 2008042Vakta málsnúmer

Með erindi dagsettu 14. ágúst 2020 leggur Helgi Jóhannsson til að gerð verði bryggja úr gömlum rafmagnsstaurum í Hornbrekkubót og að framkvæmdin fari á fjárhagsáætlun 2021. Meðfylgjandi er mynd af fyrirhugaðri staðsetningu bryggjunnar.
Nefndin tekjur jákvætt í hugmyndina og leggur til við bæjarráð að verkefnið verði sett á fjárhagsáætlun 2021.

18.Frágangur á efnislosunarsvæði að Kleifarhorni

Málsnúmer 2008043Vakta málsnúmer

Til umræðu frágangur á efnislosunarsvæðinu að Kleifarhorni í Ólafsfirði.
Deildarstjóri tæknideildar fór stöðu málsins. Nefndin leggur til að farið verði í frágang á þeim hluta svæðisins sem búið er að fullnýta.

19.Samningur við Skógræktarfélag Ólafsfjarðar

Málsnúmer 1905014Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar samningur milli Fjallabyggðar, Skógræktarfélags Ólafsfjarðar og Skógræktarfélags Íslands vegna skógræktarsvæðis ofan við byggðina í Ólafsfirði. Meðfylgjandi er uppdráttur af skógræktarsvæðinu.
Lagt fram til kynningar

Fundi slitið - kl. 18:30.