Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar

11. fundur 28. ágúst 2014 kl. 16:30 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Guðný Kristinsdóttir varaformaður, F lista
  • Hilmar Þór Hreiðarsson aðalmaður, F lista
  • Hjördís Hanna Hjörleifsdóttir aðalmaður, D lista
  • Hólmfríður Ósk Norðfjörð Rafnsdóttir aðalmaður, D lista
  • Helga Hermannsdóttir varamaður, S lista
  • Sigrún Sigmundsdóttir áheyrnarfulltrúi, B lista
  • Hjörtur Hjartarson félagsmálastjóri
Fundargerð ritaði: Hjörtur Hjartarson félagsmálastjóri

1.Skóladagatal Tónskóla Fjallabyggðar 2014-2015

Málsnúmer 1408054Vakta málsnúmer

Undir þessum lið fundargerðarinnar sat Magnús Ólafsson, skólastjóri Tónskólans. Skólastjóri lagði fram skóladagatal Tónskólans fyrir skólaárið 2014-2015. Þetta skóladagatal er fyrsta samræmda dagatal tónskóla, grunnskóla og leikskóla Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar. Kenndar eru 20,5 kennslustundir á viku, í 35 vikur.  Kennsla hefst mánudaginn 1. september næst komandi. Magnús sagði frá áhugaverðu tónlistarverkefni í samstarfi við Tónskólann, Grunnskólann og Listhús Fjallabyggðar.

Fjöldi nemenda er 100 nú í upphafi skólaárs sem er svipaður nemendafjöldi og var í skólanum á síðasta skólaári.

Við skólann eru 12 starfsmenn í 5,7 stöðugildum.  

Um síðustu áramót var tekið upp samstarf við Dalvíkurbyggð um að Magnús gegndi jafnfram stöðu skólastjóra við Tónlistarskóla Dalvíkur. Er þetta fyrirkomulag til reynslu í eitt ár. Magnús telur að sameina eigi tónskóla bæjarfélaganna undir einn hatt.

2.Skóladagatal Leikskóla Fjallabyggðar 2014 - 2015

Málsnúmer 1408055Vakta málsnúmer

Undir þessum lið fundargerðarinnar sat Olga Gísladóttir, skólastjóri Leikskólans. Skólastjóri lagði fram skóladagatal Leikskólans fyrir skólaárið 2014-2015. Skóladagatalið er með hefðbundnu sniði, en eins og skóladagatal Tónskólans þá er það samræmt dagatali hinna skólanna og eru m.a. skipulagsdagar Leikskólans samræmdir við starfsdaga Grunnskólans og Tónskólans.
Olga leggur áherslu á að Leikskólanum verði gert kleift að fjölga skipulagsdögum um einn og bæta við fjórum starfsmannafundum á ári utan vinnutíma, sem eru tveir klukkutímar í senn.

Eins og endranær verður sumarlokun Leikskólans fjórar vikur, frá 13. júlí til 12. ágúst 2015.

Fjöldi nemenda eru 116 og hefur fjölgað um 15 frá síðasta ári.

Lausa kennslustofan  sem staðsett  er á lóð Leikskála verður tekin í gagnið 2. september næst komandi.

3.Ársskýrsla Grunnskóla Fjallabyggðar 2013-2014

Málsnúmer 1408056Vakta málsnúmer

Undir þessum lið fundargerðarinnar sat Ríkey Sigurbjörnsdóttir,  skólastjóri Grunnskólans. Ríkey lagði fram Ársskýrslu Grunnskólans fyrir skólaárið 2013-2014.

Á síðasta skólaári voru 49 starfsmenn starfandi við skólann, þar af 26 kennarar. Nemendafjöldi var 206. Nú í upphafi skólaárs eru starfsmenn 45, þar af 25 kennarar. Fjöldi nemenda er 201 og þrátt fyrir fækkun nemenda milli ára er hún mun minni er gert var ráð fyrir.

Ríkey gerði grein fyrir breyttri starsemi skólans en eins og kunnugt er hefur viðbygging við skólahúsið við Norðurgötu verið tekin í notkun um leið og skólinn hættir að nýta húsnæðið að Hlíðarvegi 18-20.  Þar með er starfsemi skólans á Siglufirði komin undir eitt þak.  Bekkjardeildir í skólahúsinu við Norðurgötu eru 1.- 4. bekkur og 8.-10. bekkur. Bekkjardeildir á Ólafsfirði eru 1.-7. bekkur.
Í máli Ríkeyjar kom fram að þessum breytingum fylgja óhjákvæmilega nokkrir byrjunarörðugleikar, en segir að starfslið skólans og nemendur hafi lagst á eitt við að sníða af þá annamarka sem komið hafi upp.

Í umræðum komu fram áhyggjur nefndarmanna af ástandi skólalóðarinnar við Norðurgötu, en lóðin þarfnast talsverðrar lagfæringar við. Jafnframt er þörf á lagfæringum á skólalóðinni við skólann í Ólafsfirði.

4.Ósk um námsleyfi

Málsnúmer 1408032Vakta málsnúmer

Fyrir liggur ósk um launað námsleyfi frá Gurrý Önnu Ingvarsdóttur, leikskólakennara við Leikskóla Fjallabyggðar. Gurrý Anna hyggst sækja framhaldsnám við Háskólann á Akureyri.
Fræðslu- og frístundanefnd fagnar því að starfsmenn Fjallabyggðar séu tilbúnir til að bæta við sig sérmenntun sem nýtist í starfi og mælir með því að Gurrý Anna fái launað námsleyfi í samræmi við ákvæði kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ vegna félags leikskólakennara.
Málinu er vísað til bæjarráðs til endanlegrar afgreiðslu.

5.Samningur Fjallabyggðar um sálfræðiþjónustu veturinn 2014-2015

Málsnúmer 1408050Vakta málsnúmer

Deildarstjóri lagði fram tillögu að samningi um sálfræðiþjónustu 2014-2015.
Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

6.Fræðslustefna Fjallabyggðar

Málsnúmer 1407059Vakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 29.07.2014 að fræðslustefna bæjarfélagsins verði yfirfarin og endurbætt af fræðslu- og frístundanefnd og deildarstjóra. Yfirferð verði lokið við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015.

Fræðslu- og frístundanefnd samþykkir að skipa stýrihóp um verkefnið og í hópnum sitji Guðný Kristinsdóttir, varaformaður fræðslu- og frístundanefndar og er hún formaður hópsins, skólastjórar grunn- leik- og tónskóla, auk þess tilnefni kennarar og foreldrafélög skólanna einn fulltrúa hvor úr sínum röðum. Starfsmaður stýrihópsins er deildarstjóri fjölskyldudeildar. Bakhópur stýrihópsins er fræðslu- og frístundanefnd.

Nefndin samþykkir jafnframt að fræðslustefnan verði látin  heita skólastefna Fjallabyggðar 2015-2018.

7.Göngum í skólann

Málsnúmer 1408057Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá  aðstandendum átaksins Göngum í skólann 2014. Markmiðið er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni: www.gongumiskolann.is.

Fundi slitið.