Bæjarráð Fjallabyggðar

470. fundur 18. október 2016 kl. 08:00 - 09:45 í Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði
Nefndarmenn
  • Steinunn María Sveinsdóttir formaður, S lista
  • Kristinn Kristjánsson varaformaður, F lista
  • S. Guðrún Hauksdóttir aðalmaður, D lista
  • Sólrún Júlíusdóttir áheyrnarfulltrúi, B lista
Starfsmenn
  • Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri
  • Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála
Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Ólafsson deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Uppsagnir í Arion banka í Fjallabyggð

Málsnúmer 1609095Vakta málsnúmer

Á 468. fundi bæjarráðs, 4. október 2016, lýsti bæjarráð yfir áhyggjum sínum vegna uppsagna í útibúum Arion banka í Fjallabyggð 28. september 2016. Þessar uppsagnir væru þvert á þær yfirlýsingar sem forsvarsmenn gáfu bæjarráðsfulltrúum og bæjarstjóra við yfirtöku Arion banka á Afli-Sparisjóði á Siglufirði.
Niðurskurður stöðugilda í Fjallabyggð væri þriðjungur í stöðugildafjölda bankans í uppsögnum á landsbyggðinni og er mikil blóðtaka fyrir samfélag eins og Fjallabyggð.
Bæjarráð óskaði eftir því að fulltrúar Arion banka kæmu á næsta fund bæjarráðs og færu yfir núverandi stöðu mála og til framtíðar.

Á fund bæjarráðs mættu fulltrúar Arion banka, Oddgeir Reynisson og Guðmundur Ólafsson og upplýstu um ástæður uppsagna og þær breytingar sem gerðar voru í útibúum Arion banka í Fjallabyggð.

Bæjarráð hvetur forsvarsmenn Arion banka til að upplýsa bæjarbúa um framtíðaráform í starfsemi bankans í Fjallabyggð.

2.Staða framkvæmda - 2016

Málsnúmer 1608004Vakta málsnúmer

Á fund bæjarráðs kom deildarstjóri tæknideildar, Ármann Viðar Sigurðsson og upplýsti bæjarráð um stöðu framkvæmda ársins.

3.Síldarævintýri 2016

Málsnúmer 1607037Vakta málsnúmer

Á 469. fundi bæjarráðs. 11. október 2016, var lagt fram erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dagsett 29. september 2016, er varðar innheimtu löggæslukostnaðar vegna bæjarhátíðarinnar Síldarævintýrið á Siglufirði.
Meðfylgjandi voru umsagnir Sýslumannsins á Norðurlandi eystra og Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra vegna málsins.
Ráðuneytið gaf Fjallabyggð frest til 14. október 2016, til að veita andmæli við umsagnirnar áður en málið yrði tekið til úrskurðar.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að svara erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Lagt fram svar bæjarstjóra til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dagsett 14. október 2016.

4.Rekstraryfirlit ágúst 2016

Málsnúmer 1610045Vakta málsnúmer

Lagt fram rekstraryfirlit fyrir ágúst 2016.
Rekstrarniðurstaða Fjallabyggðar fyrir janúar til ágúst 2016, er 30,6 milljónum lakari en tímabilsáætlun gerir ráð fyrir.
Tekjur umfram gjöld eru 62,1 millj. í stað 92,7 millj.
Tekjur eru 74,9 millj. hærri en áætlun, gjöld 133,3 millj. hærri og fjármagnsliðir 27,8 millj. lægri.
Stærstu frávik tengjast lægra útsvari m.a. vegna minni tekna er viðkemur sjávarútvegi, lægri hafnartekjum, hærri launakostnaði vegna kjarasamninga, hækkun lífeyrisskuldbindinga og t.d. meiri kostnaður vegna ófyrirséðs viðhalds á fráveitu- og vatnsveitukerfum.

5.Beiðni um stuðning við málþing um fjölmiðlun í almannaþágu

Málsnúmer 1610030Vakta málsnúmer


Lögð fram erindi frá Reykjavíkurakademíunni, dagsett 10. október 2016, þar sem vakin er athygli á áhugaverðum málþingum um fjölmiðlun í almannaþágu. Málþingin verða tvö talsins, hið fyrra verður haldið laugardaginn 19. nóvember næstkomandi en hið síðara er áætlað í febrúar 2017. Í því skyni að tengja saman höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina er markmiðið að streyma málþingunum á valda staði út á land. Til þess að þetta metnaðarfulla verkefni takist óskar félagið eftir fjárstuðningi til verksins.

Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við erindinu.

6.Staðgreiðsluáætlun sveitarfélaga

Málsnúmer 1610032Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar staðgreiðsluáætlun sveitarfélaga fyrir árin 2016 og 2017 sem unnin er af hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga.

7.Varðandi dagvistun barna að loknu fæðingarorlofi

Málsnúmer 1610039Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Starfsmannafélagi Fjallabyggðar, dagsett 11. október 2016 í tengslum við niðurstöðu starfhóps á vegum Velferðaráðuneytisins um framtíðarskipan í fæðingarorlofsmálum. Í framhaldi af niðurstöðu starfshópsins, óskar nefnd BSBR um fjölskylduvænna samfélag og jafnréttismál að aðildarfélög BSRB sendi inn fyrirspurnir í sex liðum til sveitarfélaga á þeirra félagssvæði varðandi dagvistunarúrræði.

Bæjarráð felur deildarstjóra fræðslu- frístunda- og menningarmála að svara erindinu.

8.Erindi, tillögur og/eða ábendingar v. fjárhagsáætlun 2017

Málsnúmer 1610023Vakta málsnúmer



Lagðar fram til kynningar ábendingar varðandi fjárhagsáætlun 2017 frá:
a) Helga Jóhannssyni
b) Elsu Guðrúnu Jónsdóttur
c) Hestamannafélaginu Gnýfara

Bæjarráð þakkar ábendingarnar og samþykkir að vísa erindunum til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar 2017.

9.Ósk um upplýsingar - Úthlutun lóða o.fl.

Málsnúmer 1610049Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Íbúðalánasjóðs, dagsett 13. október 2016.
Íbúðalánasjóði hefur verið falið að annast framkvæmd laga nr. 52/2016 um stofnstyrki til almennra íbúða, en þessa dagana er sjóðurinn að auglýsa eftir umsóknum.
Þess vegna óskar Íbúðalánasjóður eftir eftirfarandi upplýsingum frá sveitarfélaginu;
a. Hvað úthlutaði sveitarfélagið mörgum lóðum til byggingar íbúðahúsnæðis á tímabilinu 01.01.2013 til 01.10.2016.
b. Hvað var þessum lóðum úthlutað til byggingar marga íbúða.
c. Hvert var lóðaverð fyrir þessar lóðir.
d. Einnig er óskað eftir upplýsingum um gatnagerðargjöld þessara lóða sem var úthlutað þetta tímabil.

Óskað er eftir því að svörin verði sundurliðuð þannig að fram komi hvað margar íbúðir eru á hverri lóð sem og fram komi hvað sú lóð kostar. Einnig er óskað eftir að svör verði brotin niður eftir matssvæðum og/eða póstnúmerum sveitarfélagsins.

Íbúðalánasjóður óskar eftir að umbeðnar upplýsingar berist sjóðnum fyrir 19.október n.k..

Bæjarráð felur deildarstjóra tæknideildar að svara erindinu.

10.Brú lífeyrissjóður býður sjóðfélögum óverðtryggð lán

Málsnúmer 1610051Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fréttatilkynning frá Brú lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga þar sem sjóðfélögum er nú boðinn möguleiki á að sækja um óverðtryggð lán til sjóðsins.

11.Samkomulag um framtíðarskipan lífeyrismála opinberra starfsmanna 2016

Málsnúmer 1610048Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar samkomulag Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar, og fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga, hins vegar um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna, dagsett 19. september 2016.

Samkvæmt upplýsingum Sambands íslenskra sveitarfélaga er nú ljóst að frumvarp sem samið var á grundvelli samkomulagsins var ekki samþykkt sem lög á yfirstandandi þingi. Það þýðir miðað við stöðuna eins og hún er núna að ekkert annað er að gera en að reikna með hækkun mótframlags um næstu áramót við fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár. Á hinn bóginn gæti staðan breyst ef nýtt Alþingi og ný ríkisstjórn eru tilbúin að taka málið upp aftur og samningsaðilar eru tilbúnir að sameinast um nýja niðurstöðu og útfærslu. Það verður þá að gerast fyrir næstu áramót.

Einnig er vísað til tilkynningar Brúar og LSR um hækkun á mótframlagi launagreiðenda um næstu áramót úr 12% í 16,8% hjá Brú og 11,5% í 15,1% hjá A-deild LSR.

Bæjarstjóri og deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála upplýstu bæjarráð að áhrif þessara breytinga á fjárhagsáætlun næsta árs sé um kr. 25 milljónir til útgjaldaauka.

Bæjarráð óskar eftir því að fulltrúar lífeyrissjóðanna Brúar og LSR komi á fund bæjarráðs.

12.Stjórnarfundur í Flokkun Eyjafjörður ehf. 19/10 2016

Málsnúmer 1610047Vakta málsnúmer

Boðað er til stjórnarfundar í Flokkun Eyjafjarðar 19. október 2016 á Akureyri.

Þar sem starfssemi Flokkunar hefur verið lítil undanfarin misseri, hefur stjórnin lagt til að verkefni Flokkunar verði sett í umsjón Moltu að mestu leyti á meðan verkefnin eru ekki stærri og meiri. Með þessu fyrirkomulagi má spara fjármuni og jafnframt styrkja Moltu.
Þar sem ekki eiga öll hlutaðeigandi sveitarfélög fulltrúa í stjórn Flokkunar, er þeim sveitarfélögum sem þannig er ástatt um boðið að senda fulltrúa á stjórnarfundinn svo allir séu upplýstir um stöðu mála. Þau sveitarfélög eru Grýtubakkahreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Eyjafjarðarsveit og Fjallabyggð.

Bæjarráð samþykkir að fela forseta bæjarstjórnar að sækja stjórnarfundinn.

Fundi slitið - kl. 09:45.