Bæjarráð Fjallabyggðar

656. fundur 16. júní 2020 kl. 08:15 - 09:00 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Helga Helgadóttir formaður, D lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
  • Jón Valgeir Baldursson aðalmaður, H lista
Starfsmenn
  • Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála

1.Málefni vegagerðarinnar í Fjallabyggð

Málsnúmer 1902006Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samantekt deildarstjóra tæknideildar dags. 28.05.2020, eftir fund deildarstjóra og bæjarstjóra með Vegagerðinni um málefni Vegagerðar í Fjallabyggð.

2.Snjóskaflar og kirkjutröppur á Siglufirði

Málsnúmer 2005102Vakta málsnúmer

Á 654. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn deildarstjóra varðandi erindi Kristjáns L. Möllers dags. 04.06.2020, vegna lagfæringar á kirkjutröppum á Siglufirði.
Lögð fram umsögn deildarstjóra tæknideildar dags. 10.06.2020, þar sem fram kemur að búið er að lagfæra handrið á kirkjutröppum, setja upp lýsingu og lakka. Ólokið er viðgerð á einni slaufu í snjóbræðslu sem gert var við í haust.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra tæknideildar að fylgja málinu eftir.

3.Minnisblað, sumarátaksstarf námsmanna 2020

Málsnúmer 2005024Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar og deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála dags. 15.05.2020, vegna úrvinnslu umsókna um sumarátaksstörf námsmanna 2020 í samstarfi við Vinnumálastofnun. Alls bárust 54 umsóknir um 10 störf sem Fjallabyggð fékk úthlutað frá Vinnumálastofnun, flestir umsækjendur uppfylltu ekki skilyrði um ráðningu.
Ráðið var í 8 störf:
3 störf í menningarstarf, „starfsmenn til styrktar“ og fer einn þeirra til láns í Skúlptúrgarðinn við Alþýðuhúsið og tveir til Síldarminjasafnsins.
1 starf í markaðsvinnu í sveitarfélaginu og hugsanlega líka í Listasafn Fjallabyggðar.
1 starf við félagslega þátttöku eldri borgara.
3 störf við fegrun umhverfis og ásýndar sveitarfélagsins.

Kostnaður sveitarfélagsins við 8 störf í tvo mánuð er áætlaður kr. 3.312.000 og óskast settur í viðauka nr. 16/2020 við fjárhagsáætlun 2020 og að honum sé mætt með lækkun á handbæru fé.

Viðaukinn verður á eftirtalda lykla :
kr. 414.000 á deild 05810, lykil 9291.
kr. 828.000 á deild 05850, lykil 9291.
kr. 414.000 á deild 75210, lykill 1110.
kr. 1.656.000. á deild 21600, lykill 1110.



4.Utanhússklæðning á Ráðhús

Málsnúmer 2005053Vakta málsnúmer

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar dags. 12.06.2020, þar sem fram kemur að tilboð voru opnuð í verkið „Gránugata 24, endurbætur utanhúss, utanhússklæðning“ þriðjudaginn 09.06.2020
Eftirfarandi tilboð bárust:
Berg ehf. kr. 17.673.300
L7 ehf. kr. 27.986.500
Kostnaðaráætlun er kr. 24.340.000

Þann 12.06.2020 barst erindi frá Ólafi Sölva Eiríkssyni f.h. Berg ehf. þar sem fallið var frá tilboði Berg ehf. vegna mistaka sem gerð voru við tilboðsgerð.
Í ljósi þess leggur deildarstjóri til við bæjarráð að tilboði L7 ehf. verði tekið. Ekki er talið ráðlegt að fresta verkinu lengur þar sem byggingin liggur undir skemmdum.

Bæjarráð samþykkir að taka tilboði L7 ehf. í verkið og vísar mismuni kr. 4.986.500.- til viðauka nr. 17/2020 við deild 31310, lykill 4965 og að honum sé mætt með lækkun á handbæru fé.

5.Vegur upp á lágheiði

Málsnúmer 2006024Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Laugarár ehf. dags. 11.06.2020, sem á og rekur orlofshús í landi Þverár í Ólafsfirði. Óskað er eftir því að sveitarfélagið beiti sér fyrir því við Vegagerðina, að Ólafsfjarðarvegur nr. 82 fram Ólafsfjörð, verði lagfærður varanlega. Vegurinn er í afar slæmu ásigkomulagi og hefur verið lengi. Samkvæmt deiliskipulagi er heimilt að byggja 23 orlofshús í landi Þverár.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að senda erindi á Vegagerðina og óska eftir því að vegurinn verði lagfærður hið fyrsta.

6.Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - Yummy Yummy ehf

Málsnúmer 2006015Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Sýslumannsins á Norðurlandi eystra dags. 05.06.2020, þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins vegna umsóknar Yummy Yummy ehf. kt. 601115-2390, Túngötu 37, 580 Siglufirði um rekstrarleyfi skv. lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 með síðari breytingum. Flokkur II.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti.

7.Beiðni Leyningsáss ses um frestun framkvæmda við Skarðsveg

Málsnúmer 2006019Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Vegagerðarinnar dags. 11.06.2020, þar sem fram kemur að Vegagerðinni hefur borist erindi Valtýs Sigurðssonar stjórnarformanns f.h. Leyningsás ses. þar sem óskað er eftir því að hlé verði gert á vegaframkvæmdum í Skarðsdal á meðan málið verður skoðað í heild af hagsmuna- og fagaðilum. Afrit var sent á Elías Pétursson bæjarstjóra og stjórnarmann í Leyningsás ses.. Vegagerðin er bundin samningi við verktaka sem tók að sér framkvæmd verksins árið 2017 og er verktaki að undirbúa lokaframkvæmdir eftir vetrarhlé.

Vegagerðin óskar eftir afstöðu Fjallabyggðar til erindis Leyningsás ses. sem allra fyrst, þar sem Fjallabyggð er landeigandi, stóð fyrir deiliskipulagi og veitti framkvæmdaleyfi.

Einnig lagt fram erindi Valtýs Sigurðssonar formanns stjórnar f.h. Leyningsás ses. dags. 02.06.2020.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að vinna umsögn og leggja fyrir bæjarráð.

8.Undanþága v. snjóflóðahættumats

Málsnúmer 2005026Vakta málsnúmer

Á 651. fundi bæjarráðs fól ráðið bæjarstjóra að gera drög að svari vegna erindis Róberts Guðfinnssonar f.h. Selvíkur ehf. dags. 06.05.2020, þar sem óskað var eftir upplýsingum um framgang ofanflóðamannvirkja í sveitarfélaginu en skv. bréfi Umhverfisráðuneytis frá 01.11.2011, átti þeirri vinnu að vera lokið fyrir árið 2020.
Lagt fram svar Ofanflóðanefndar dags. 08.06.2020, þar sem fram kemur að varnir hafa ekki verið kláraðar en mikilvægustu varnarvirki hafa verið reist. Gert er ráð fyrir að vörnum fyrir þéttbýli á Siglufirði verði lokið í átaki sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðist verði í við ofanflóðavarnir. Fyrir liggur tímasett framkvæmdaáætlun þar sem fram kemur að vinna við varnir í þéttbýli á Siglufirði heldur áfram á næsta ári. Skýrsla um tillögu að endurskoðun á hættumatslínum þar sem Hótel Sigló stendur og hættumati þegar framkvæmdum líkur að fullu, verður skilað í lok þessa mánaðar. Ákvæði 22. gr. reglugerðar nr. 505/2000 eiga því enn við um Hótel Sigló.

Bæjarráð fagnar því að áfram verður haldið með framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Siglufirði ásamt endurskoðun á hættulínum og hættumati.

9.Ósk um umsögn er varða mögulegt fiskeldi í Eyjafirði

Málsnúmer 2006022Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis dags. 09.06.2020, þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins á því hvort rétt sé að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði innan línu sem dregin verður frá Siglunesi að Bjarnarfjalli.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna umbeðna umsögn og leggja fyrir bæjarráð.

10.Aðgerðir sumarsins - Markaðsstofa Norðurlands

Málsnúmer 2006023Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Markaðsstofu Norðurlands dags. 10.06.2020, er varðar aðgerðir sumarsins þar sem fram kemur að kynningarstarf þetta sumar er nokkuð breytt hjá Markaðsstofunni þar sem meiri áhersla en áður er á innanlandsmarkað.

11.Ný stjórn Markaðsstofu Norðurlands

Málsnúmer 2006014Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Markaðsstofu Norðurlands dags. 05.06.2020, þar sem tilkynnt er um nýja stjórn Markaðsstofu, stjórnina skipa;
Viggó Jónsson formaður
Örn Arnarson
Heba Finnsdóttir
Sigrún Hulda Sigmarsdóttir
Edda Hrund Guðmundsdóttir
Varamenn eru Þórdís Bjarnadóttir og Tómas Árdal.
Áheyrnarfulltrúar eru Álfhildur Leifsdóttir fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Axel Grettisson fyrir Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE)

12.Verklag og leiðbeiningar til framkvæmdaraðila vegna ferðatakmarkana og sóttvarnaráðstafna

Málsnúmer 2006016Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Ríkislögreglustjóra dags. 04.06.2020, er varðar verklag og leiðbeiningar til framkvæmdaaðila vegna ferðatakmarkana og sóttvarnarráðstafana.

13.Bréf til bæjarráðs - Styrkur til Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar

Málsnúmer 2005077Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Gunnsteins Ólafssonar f.h. Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar dags.25.02.2020, þar sem fram kemur að stjórn setursins hefur ákveðið að Þjóðlagahátíðin á Siglufirði sem halda átti dagana 1. - 5. júlí, verður ekki haldin í ár vegna Covid-19. Í stað þess verða haldnir fernir tónleikar í Siglufjarðarkirkju sumarið 2020. Sótt hefur verið um styrk til Tónlistarsjóðs vegna þeirra.
Fjallabyggð samþykkti styrk til þjóðlagahátíðar 2020, kr. 800.000 og kr. 800.000 til Þjóðlagaseturs. Óskað er eftir því að bæjarráð Fjallabyggðar veiti umræddan styrk til Þjóðlagahátíðar 2020, til Þjóðlagasetursins vegna rekstrarvanda safnsins árið 2020.
Styrkur frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) til Þjóðlagaseturs árið 2019 var kr. 1.600.000 en í ár kr. 1.000.000. Viðbótarstyrkur frá Fjallabyggð er nauðsynlegur til að brúa þetta 600.000 króna bil, svo setrið verði ekki rekið með halla árið 2020. Þá má einnig gera ráð fyrir lægri tekjum í ár vegna fækkunar erlendra ferðamanna sem voru 60% gesta á árinu 2019. Sú staðreynd sýnir fram á enn ríkari þörf á að Fjallabyggð veiti Þjóðlagasetrinu þann styrk sem annars var ætlaður Þjóðlagahátíðinni sumarið 2020.
Bæjarráð hafnar því að veita styrk sem ætlaður var til Þjóðlagahátíðar árið 2020 til reksturs safnsins og áréttar að styrkir verða ekki greiddir út vegna hátíða eða viðburða sem ekki fara fram á árinu 2020.

Í ljósi rekstrarvanda safnsins samþykkir bæjarráð að veita safninu styrk sem samsvarar launakostnaði sveitarfélagsins við eitt sumarátaksstarf námsmanns í tvo mánuði og vísar kostnaði kr. 414.000 í viðauka nr.18/2020 við deild 05810, lykill 9291 og að honum sé mætt með lækkun á handbæru fé.

14.Fundargerðir SSNE - 2020

Málsnúmer 2002043Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir 8. 9. og 10. funda stjórnar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) frá 8. apríl sl., 6. maí sl., og 2. júní sl.

Fundi slitið - kl. 09:00.