Málefni vegagerðarinnar í Fjallabyggð

Málsnúmer 1902006

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 591. fundur - 05.02.2019

Lögð fram til kynningar samantekt af fundi bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar við fulltrúa Vegagerðarinnar um málefni Vegagerðarinnar í Fjallabyggð sem fram fór á Akureyri þann 29.01.2019. Rætt var um stöðu á þjónustusamningi í brunavarnaráætlun Fjallabyggðar, miðbæjarskipulag á Siglufirði, yfirlagnir á þjóðvegi í þéttbýli, efnistöku vegna burðarlaga í Skarðsveg, vindmæli á Saurbæjarás og útboð vegna efnisvinnslu á ofaníburði í Ólafsfirði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 642. fundur - 03.03.2020

Lagt fram vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar, dags. 26.02.2020 er varðar samantekt eftir fund með forsvarsmönnum Vegagerðarinnar þann 26.02.2020.
Eftirtalin málefni voru rædd:

Yfirlagnir á þjóðvegi í þéttbýli.
Fjallabyggð ítrekar fyrri áskoranir um að klára yfirlögn á þjóðveginum í gegnum þéttbýlin. Vegagerðin er ekki komin með áætlun þar sem fjármagn fyrir árið 2020 liggur ekki fyrir. Vegagerðin gerir þó ráð fyrir að leggja á Hvanneyrarbraut frá gatnamótum við Túngötu og til norðurs út fyrir nyrstu blokkina, ca. 400 metra. Fjallabyggð áætlar að fara í endurnýjun fráveitulagna í Hvanneyrarbraut framan við sundlaugina á Siglufirði og verður því að hafa samráð við Vegagerðina vegna þessa.

Götulýsing.
Götulýsing á þjóðvegi í þéttbýli hefur verið mjög bágborin í vetur og kvörtunum hefur rignt inn til Fjallabyggðar. Vegagerðin ætlar að gera samkomulag við verktaka sem mun sjá um viðhald á götulýsingu við þjóðveg í þéttbýli.

Miðbæjarskipulag Siglufirði.
Búið er að forhanna allar götur en hönnun verður ekki kláruð fyrr en fjármögnun liggur fyrir. Hlutur Vegagerðarinnar er áætlaður 60 milljónir.

Saurbæjarás.
Fjallabyggð ítrekar ósk sína um að fá vindmæli á gangnamunnann í Skútudal. Vegagerðin ætlar að þrýsta á að þetta verði gert.
Á fundi 29.01.2019 var bókað að málið væri komið á skrið og yrði klárað um sumarið. Einhverra hluta vegna hefur það ekki gengið eftir.

Grindarhlið við Hornbrekku.
Fjallabyggð óskar eftir að grindarhlið við Hornbrekku verði fært til suðurs að afleggjara að Hlíð. Fjallabyggð mun svo sjá um að girða til og frá hliðinu. Vegagerðin samþykkir að láta framkvæma þetta í sumar

Stokkur undir Hvanneyrarbraut.
Fjallabyggð áætlar að byggja við sundlaugina á Siglufirði og mun viðbyggingin liggja ofan á stokknum sem Hvanneyrará liggur í undir Hvanneyrarbraut og til sjávar. Fara þarf í lagfæringar á stokknum þar sem hann liggur undir Hvanneyrarbraut. Vegagerðin ætlar að athuga með að steypa botn í stokkinn undir Hvanneyrarbraut.

Ólafsfjarðarmúli.
Fjallabyggð fékk ábendingu um að ekki hafi verið mokað úr snjóflóðaskápum í Ólafsfjarðarmúla. Er í mokstursplani hjá Vegagerðinni að tæma þá þegar þeir eru fullir.

Umferðar- og vindmælar á Siglufjarðarvegi.
Mælarnir hafa verið bilaðir í nokkra daga. Vegagerðin er að vinna að viðgerð en varahlutir sem sendir voru skemmdust í flutningi og er beðið eftir nýjum pörtum. Verður lagað við fyrsta tækifæri.

Breytingar á hámarkshraða á þjóðvegi í þéttbýli.
Fjallabyggð vinnur að breytingum á hámarkshraða í sveitarfélaginu. Vegagerðin bendir á að Fjallabyggð ákveður hvaða hraði verður en Vegagerðin veitir umsögn vegna þessa. Vegagerðin sér um að breyta stillingu á blikkskiltum við innkomu í bæina vegna þessara breytinga.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar að fylgja málum eftir.


Bæjarráð Fjallabyggðar - 656. fundur - 16.06.2020

Lögð fram til kynningar samantekt deildarstjóra tæknideildar dags. 28.05.2020, eftir fund deildarstjóra og bæjarstjóra með Vegagerðinni um málefni Vegagerðar í Fjallabyggð.