Úthlutun byggðakvóta 2023-2024

Málsnúmer 2312003

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 814. fundur - 08.12.2023

Lagt er fram erindi Matvælaráðuneytisins þar sem Fjallabyggð er tilkynnt hversu miklar aflaheimildir koma í hlut hvers byggðarlags innan sveitarfélagsins við úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023/2024.
Vísað til afgreiðslu starfsmanns
Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna málið áfram og leggja fyrir bæjarstjórn drög að reglum um byggðakvóta fyrir Fjallabyggð þar sem haft verði að leiðarljósi hámarksnýting byggðakvótans. Bæjarráð telur mikilvægt að óska eftir auknum sveigjanleika vegna vinnsluskyldu fyrir Fjallabyggð vegna þeirra aðstæðna sem eru fyrir hendi í sveitarfélaginu.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 142. fundur - 13.12.2023

Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023/2024.
Hafnarstjóri fór yfir tillögur að sérreglum fyrir Fjallabyggð varðandi byggðarkvóta.
Hafnarstjórn samþykkir tillögurnar fyrir sitt leiti og vísar til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 237. fundur - 14.12.2023

Lagt er fram erindi Matvælaráðuneytisins þar sem Fjallabyggð er tilkynnt hversu miklar aflaheimildir koma í hlut hvers byggðarlags innan sveitarfélagsins við úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023-2024.
Á 814. fundi bæjarráðs var bæjarstjóra falið að vinna málið áfram og leggja fyrir bæjarstjórn drög að reglum um byggðakvóta fyrir Fjallabyggð þar sem haft verði að leiðarljósi hámarksnýting byggðakvótans. Tillögur bæjarstjóra að sérreglum Fjallabyggðar um byggðakvóta lagðar fram.

Guðjón M. Ólafsson, Sigríður Ingvarsdóttir, S. Guðrún Hauksdóttir, Helgi Jóhannsson og Tómas Atli Einarsson tóku til máls.
Samþykkt
Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu að sérreglum um byggðakvóta með 7 atkvæðum.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að senda ráðuneytinu eftirfarandi ósk um sérreglur í reglugerð 852/2023 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023-2024.

Lagt er til að sérreglur í reglugerð hvað varðar Fjallabyggð verði með þeim hætti að heimilt verði að landa afla innan sveitarfélags óháð því í hvoru byggðarlagi bátur fær úthlutun, einnig er lagt til að hámark úthlutunar til hvers skips verði ekki meiri en 80 tonn.

Ákvæði reglugerðar nr. 852/2023 gilda um úthlutun byggðakvóta Ólafsfjarðar og Siglufjarðar með eftirfarandi breytingum:

a) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr., c liðar 1. greinar breytist og verður:
Eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi sveitarfélagi 1. júlí 2023.

b) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðalags á fiskveiðiárinu, þó að hámarki 80 þorskígildistonn á fiskiskip.

c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: "Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðarkvóta innan sveitarfélagsins. "

Bæjarstjórn leggur sérstaka áherslu á breytingatillögur c-liðar og að Matvælaráðuneytið taki tillit til aðstæðna í Fjallabyggð og heimili að undanþágu frá algerri vinnsluskyldu og tryggi þannig hámarksnýtingu byggðakvótans fyrir samfélagið í Fjallabyggð.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 240. fundur - 08.03.2024

Á 237. fundi bæjarstjórnar var lagt fram erindi Matvælaráðuneytisins þar sem Fjallabyggð er tilkynnt hversu miklar aflaheimildir koma í hlut hvers byggðarlags innan sveitarfélagsins við úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023-2024.
Á 814. fundi bæjarráðs var bæjarstjóra falið að vinna málið áfram og leggja fyrir bæjarstjórn drög að reglum um byggðakvóta fyrir Fjallabyggð þar sem haft verði að leiðarljósi hámarksnýting byggðakvótans.
Bæjarstjórn samþykkti tillögur að sérreglum um byggðakvóta með 7 atkvæðum, þó með þeim breytingum að sérreglur í reglugerð hvað varðar Fjallabyggð yrðu með þeim hætti að heimilt yrði að landa afla innan sveitarfélags óháð því í hvoru byggðarlagi bátur fær úthlutun, einnig er lagt til að hámark úthlutunar til hvers skips verði ekki meiri en 80 tonn.
Þann 25. janúar 2023 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing Matvælaráðuneytisins um (1.) staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023/2024, þar sem ráðuneytið staðfesti sérstök skilyrði vegna úthlutunar aflaheimilda í Fjallabyggð.
Ekki fallist á breytingatillögu Fjallabyggðar að öllu leyti, þar sem áfram er vinnsluskylda innan sveitarfélagsins á lönduðum afla.
Samþykkt
Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu að sérreglum um byggðakvóta með 7 atkvæðum.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að senda ráðuneytinu eftirfarandi ósk um breytingu á sérreglum Fjallabyggðar í reglugerð 852/2023 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2023-2024.

a) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa í sveitarfélaginu þeim afla sem telja á til byggðakvóta sveitarfélagsins og til vinnslu á tímabilinu frá 1. september 2023 til 31. ágúst 2024.