Farið var yfir stöðuna sem kom upp í Ólafsfirði þann 2. og 3. október sl.
Á laugardagskvöld 2. október var mikil rigning á Tröllaskaga. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var úrkomumagn í Ólafsfirði 124mm þann sólarhringinn á móti 77mm á Siglufirði. Um nóttina var óvissustigi almannavarna lýst yfir á svæðinu. Síðdegis á laugardag fékk slökkvilið fyrstu tilkynningu um að vatn væri farið að flæða inn í hús á Ólafsfirði sem ágerðist þegar leið að miðnætti. Þegar varð ljóst að um stórt verkefni væri að ræða og voru Björgunarsveitin Tindur og Björgunarsveitin Strákar kallaðar út í verðmætabjörgun. Úrkoman og ákefðin var mikil alla nóttina og ef eitthvað er bætti í um tíma. Í fyrstu var talið að fráveitukerfi bæjarins væri ekki að standast áhlaup veðursins en síðar kom í ljós að lækur við Hornbrekku hafði flætt yfir bakka sína þar sem ræsi undir Ólafsfjarðarveg hafði ekki undan vatnsstraumnum sem venjulega fer beint í Ólafsfjarðarvatn. Því tók vatn að flæða inn að þéttbýli Ólafsfjarðar. Um leið og það uppgötvaðist var hægt að fara í aðgerðir við að koma vatni frá bænum og fékk þjónustumiðstöðin og slökkvilið stórvirka vinnuvél til þess að reisa varnargarða á tveimur stöðum. Þannig var hægt að vinna á því vatnsmagni sem þegar hafði flætt inn í bæinn.
Slökkvilið og björgunarsveitir unnu að aðgerðum í um 20 húsum í Ólafsfirði. Björgunarsveitir fengu aðstoð frá öðrum björgunarsveitum í Eyjafirði og slökkvilið fékk aðstoð frá Slökkviliði Dalvíkur og Slökkviliði Akureyrar. Aðgerðir stóðu í tæpan sólarhring.