Úrkoma á Ólafsfirði 2. - 3. október 2021

Málsnúmer 2110009

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 712. fundur - 05.10.2021

Undir þessum lið sátu Tómas Atli Einarsson bæjarfulltrúi, Helga Helgadóttir bæjarfulltrúi, Guðrún Linda Rafnsdóttir bæjarfulltrúi og Helgi Jóhannsson bæjarfulltrúi. Einnig sátu undir þessum lið Ármann V. Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar, Jóhann K. Jóhansson slökkviliðsstjóri og Birgir Ingimarsson bæjarverkstjóri.
Farið var yfir stöðuna sem kom upp í Ólafsfirði þann 2. og 3. október sl.

Á laugardagskvöld 2. október var mikil rigning á Tröllaskaga. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var úrkomumagn í Ólafsfirði 124mm þann sólarhringinn á móti 77mm á Siglufirði. Um nóttina var óvissustigi almannavarna lýst yfir á svæðinu. Síðdegis á laugardag fékk slökkvilið fyrstu tilkynningu um að vatn væri farið að flæða inn í hús á Ólafsfirði sem ágerðist þegar leið að miðnætti. Þegar varð ljóst að um stórt verkefni væri að ræða og voru Björgunarsveitin Tindur og Björgunarsveitin Strákar kallaðar út í verðmætabjörgun. Úrkoman og ákefðin var mikil alla nóttina og ef eitthvað er bætti í um tíma. Í fyrstu var talið að fráveitukerfi bæjarins væri ekki að standast áhlaup veðursins en síðar kom í ljós að lækur við Hornbrekku hafði flætt yfir bakka sína þar sem ræsi undir Ólafsfjarðarveg hafði ekki undan vatnsstraumnum sem venjulega fer beint í Ólafsfjarðarvatn. Því tók vatn að flæða inn að þéttbýli Ólafsfjarðar. Um leið og það uppgötvaðist var hægt að fara í aðgerðir við að koma vatni frá bænum og fékk þjónustumiðstöðin og slökkvilið stórvirka vinnuvél til þess að reisa varnargarða á tveimur stöðum. Þannig var hægt að vinna á því vatnsmagni sem þegar hafði flætt inn í bæinn.
Slökkvilið og björgunarsveitir unnu að aðgerðum í um 20 húsum í Ólafsfirði. Björgunarsveitir fengu aðstoð frá öðrum björgunarsveitum í Eyjafirði og slökkvilið fékk aðstoð frá Slökkviliði Dalvíkur og Slökkviliði Akureyrar. Aðgerðir stóðu í tæpan sólarhring.
Bæjarráð vill koma kærum þökkum til allra þeirra viðbragðsaðila sem unnu að aðgerðum báða þessa daga. Ljóst er að ef þeirra nyti ekki við hefði ástandið orðið mun verra. Einnig fá íbúar kærar þakkir fyrir dugnað og þolinmæði á meðan unnið var úr aðstæðum.

Verið er að skoða leiðir til úrbóta og bæjarráð óskar eftir umsögn deildarstjóra tæknideildar fyrir næsta fund ráðsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 714. fundur - 14.10.2021

Lagt er fram til kynningar minnisblað deildarstjóra tæknideildar dags. 11. október 2021. Í minnisblaðinu fer deildarstjóri yfir helstu atriði sem upp komu dagana 2. til 4. október sl. þegar vatn flæddi inn í hús á Ólafsfirði í miklu vatnsveðri. Einnig er í minnisblaðinu farið yfir helstu aðgerðir sem ráðast þarf í svo minnka megi líkur á að viðlíka staða komi upp aftur.
Samþykkt
Bæjarráð þakkar framlagt minnisblað og leggur á það áherslu að farið verði svo fljótt sem verða má í þær framkvæmdir sem þarf, einnig leggur bæjarráð ríka áherslu á að lokið verði við verkefni sem hefur verið í gangi frá 2018 og er ætlað að bæta virkni frárennsliskerfisins á Ólafsfirði.