Auglýsing umsóknar um byggðakvóta fiskveiðiársins 2018/2019

Málsnúmer 1810063

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 576. fundur - 15.10.2018

Lagt fram erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags. 2. október 2018 þar sem bæjar- og sveitarstjórnum er gefin kostur á að sækja um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 á grundvelli 10. gr. laga nr. 116/2006 með síðari breytingum. Umsóknafrestur er til 1. nóvember 2018

Bæjarráð samþykkir að sækja um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 og felur bæjarstjóra að senda umsókn til ráðuneytisins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 583. fundur - 27.11.2018

Lagt fram bréf frá Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytinu dags. 23.nóvember 2018 um umsókn Fjallabyggðar um úthlutun byggðakvóta, fyrir fiskveiði árið 2018/2019 koma 300 þorskígildistonn til ráðstöfunar í Ólafsfirði og 300 þorskígildistonn til ráðstöfunar á Siglufirði.

Frestur til að skila inn tillögum er til og með 21. desember 2018.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 585. fundur - 11.12.2018

Bæjarráð samþykkir að vísa afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar Fjallabyggðar.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 169. fundur - 14.12.2018

Samkvæmt tölvupósti sendur þann 12.12.2018 frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þá urðu mistök við útreikning á byggðakvóta þar sem Siglufjörður fær úthlutað 198 þorskígildistonnum en ekki 300 þorskígildistonnum eins og áður hafði verið bókað.
Til máls tóku: Helga Helgadóttir, Jón Valgeir Baldursson, S. Guðrún Hauksdóttir og Gunnar Ingi Birgisson.

Bæjarráð tók til umfjöllunar á fundi sínum 11. desember 2018, úthlutun byggðakvóta.

Samkvæmt niðurstöðu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um úthlutun byggðakvóta til sveitarfélagins fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 koma 300 þorskígildistonn til ráðstöfunar í Ólafsfirði og 198 þorskígildistonn til Siglufjarðar, sem er aukning um 103 þorskígildistonn frá síðustu úthlutun en þá hlaut Siglufjörður ekki úthlutun á byggðakvóta.
Samkvæmt 2 gr. reglugerðar um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2018/2019 nr. 685/2018 getur bæjarstjórn óska eftir því við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fyrir 21. desember 2018 að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðalags.
Þá hefur bæjarráði borist undirritað bréf frá 11 útgerðum og 4 fiskverkendum í Ólafsfirði þar sem farið er fram á að bæjarstjórn óski eftir eftirfarandi sérstökum skilyrðum varðandi úthlutun sem talin eru til þess fallin að byggðakvóti veiðist í sveitarfélaginu og verðmæti skili sér að landi, efli landvinnslu og fjölgi störfum. Í mörg ár hefur byggðakvóti ekki veiðst að fullu og því ekki skilað því sem honum er ætlað til samfélagsins. Þess má geta að á fiskveiðiárinu 2018/2019 kemur til endurúthlutunar í Ólafsfirði óveiddur byggðakvóti sem nemur 216 þorskígildistonnum. Heildarafli nemur því 714 þorskígildistonnum á fiskveiðiárinu og miklir hagsmunir í húfi fyrir samfélagið í heild að afli veiðist og skili sér í vinnslur. Ljóst er að bátar sem rétt eiga á þessum kvóta geta fæstir veitt það magn sem um er að ræða, ef þeir eiga að tvöfalda það, þ.e. skila tonni á móti tonni sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar og þess því sérstaklega óskað að ákvæði reglugerðar um tonn á móti tonni falli burt.
Bæjarstjórn telur mikilvægt að byggðakvóti veiðist og efli þar með landvinnslu og leiði til fjölgunar starfa í sveitarfélaginu en vinnsla í sveitarfélaginu hefur átt undir högg að sækja um langt skeið og störfum fækkað. Ef sérstök skilyrði sem þessi verða til þess að efla útgerð og vinnslu í sveitarfélaginu telur bæjarstjórn rétt að verða við óskum þeirra aðila sem að þessari atvinnugrein koma og létu sig málið varða. Þess má geta að bæjarstjórn sendi bréf til útgerða og fiskverkenda í sveitarfélaginu þar sem skorað var á aðila að koma sér saman um tillögur til úrbóta.

Bæjarstjórn samþykkir því að óska eftir eftirfarandi sérstökum skilyrðum við úthlutun byggðakvóta við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með þeim rökum sem upp hafa verið talin:

a) Við a. lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er óskað eftir eftirfarandi viðbót:
Afla skal skipt á milli fiskiskipa byggðarlagsins sem eru undir 1.000 brt. rúmlestum að stærð.


b) Ákvæði 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður:
Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2017 til 31. ágúst 2018, þó ekki hærra en 70.000 þorskígildiskíló pr. bát. Það sem kann að verða eftir af ónýttum kvóta 1. júní 2019, skal endurúthluta til þeirra báta sem hafa nýtt byggðakvóta sinn og uppfylla skilyrði að öðru leiti.

c) Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður áfram:
Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.

d) Ákvæði 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður áfram:
Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2018 til 31. ágúst 2019.
e) Ákvæði 1. mgr. 6. gr. verði gerð eftirfarandi breyting:
Setningin „Aflinn skal nema í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamagns sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari“ falli burt.

f) Við ákvæði 1. mgr. 6. gr. er óskað eftir eftirfarandi viðbót:
Heimil eru skipti á fiski í jöfnum ígildum milli fiskvinnslna.

Samþykkt með 7 atkvæðum á 169. fundi bæjarstjórnar.


Bæjarráð Fjallabyggðar - 591. fundur - 05.02.2019

Lagt fram til kynningar erindi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 30.01.2019 varðandi tillögur/óskir bæjarstjórnar Fjallabyggðar um sérreglur vegna úthlutunar byggðakvóta fiskveiðiársins 2018/2019. Niðurstaða ráðuneytisins er eftirfarandi:

a) liður tillagnanna samþykktur.
b) liður tillagnanna samþykktur að öðru leiti en að síðasta málsgrein er ekki samþykkt vegna ákvæða laga og reglugerðar um byggðakvóta.
c) liður tillagnanna samþykktur.
d) liður tillagnanna samþykktur.
e) liður tillagnanna synjað þar sem skýr laga- og reglugerðarákvæði eru um tvöföldun byggðakvótans og verða engar undantekningar frá því samþykktar.
f) liður tillagnanna samþykktur.

Sérreglur Fjallabyggðar verða því eftirfarandi:

Ákvæði reglugerðar nr. 685 frá 5. júlí 2018 gilda um úthlutun byggðakvóta Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með eftirfarandi viðauka/breytingum:

a) Ákvæði a-liðar 1. gr. breytist og verður: Hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, við lok umsóknarfrests og eru undir 1.000 brúttótonn að stærð.

b) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2017 til 31. ágúst 2018, þó að hámarki 70.000 þorskígildiskíló á bát.

c) Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.

d) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2018 til 31. ágúst 2019.

e) Við ákvæði 1. mgr. 6. gr. bætist: Heimil eru skipti á fiski í jöfnum þorskígildum milli fiskvinnslna

Bæjarráð Fjallabyggðar - 621. fundur - 24.09.2019

Lögð fram drög að bréfi bæjarráðs til Atvinnu-og nýsköpunarráðuneytisins er varðar fyrirspurn vegna byggðarkvóta.

Bæjarráð samþykkir drögin og felur deildarstjóra stjórnsýslu- og fjármáladeildar að senda bréfið áfram.