Deiliskipulag - Skólareitur Siglufirði

Málsnúmer 1302013

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 150. fundur - 06.02.2013

Lögð fram bókun bæjarráðs frá 5. febrúar 2013, ásamt greinargerð, um gerð deiliskipulags af svokölluðum grunnskólareit:

"Bæjarráð felur skipulags- og umhverfisnefnd, í samvinnu við Landslag/Ómar Ívarsson, að vinna deiliskipulag af lóð Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði og götureitsins sem skólinn stendur á.
Í skipulagsvinnunni verði m.a. skoðað skuggavarp fyrirhugaðrar viðbyggingar við skólann og bílastæðamál og haft samráð við hagsmunaaðila eins og skipulagslög gera ráð fyrir. Deiliskipulagið sé í fullu samræmi við aðalskipulag Fjallabyggðar."

Greinargerð með tillögu:
- Árið 1994 ákvað bæjarstjórn Siglufjarðar að láta teikna heilstæðan grunnskóla á þessum stað.
- Skólann átti að byggja í áföngum og vera einsetinn skóli í samræmi við lög og reglur.
- Lögð var áhersla á að byggingin væri í samræmi við götumynd, byggðamynstur og þéttleika byggðar.
- Ráðist var í fyrsta áfanga á árinu 1996 og var sá hluti tekinn í notkun 1999.
- Til að ná markmiðum sínum hafði verið ákveðið að stækka lóð skólans og fækka lóðum á umræddum lóðarreit og húsum og halda þar með þéttleika byggðar.
Sameining sveitarfélaga á Tröllaskaga varð að veruleika í júní 2006.
Í samræmi við þessa stefnu voru eftirfarandi lóðir á Siglufirði sameinaðar lóð grunnskólans árið 2007:
- Norðurgata 6 og 8.
- Vetrarbraut 3, 5, 7 og 9.
- Eyrargata 1 og 5.
Í Aðalskipulagi Fjallabyggðar sem gildir frá 2008 - 2028 hefur lóð grunnskólans verið afmörkuð sem svæði fyrir þjónustustofnanir, þar með eru fyrr nefndar lóðir sem og lóð nr. 3 við Eyrargötu.
Eftir sameiningu sveitarfélaganna kom fljótlega í ljós að ekki væri þörf á svo mikilli uppbyggingu í báðum bæjarkjörnum m.a. vegna fækkunar í árgöngum beggja vegna. Unnið var að framtíðarskipan skólamála í nýju umhverfi á árunum 2008 - 2009. Framtíðarskipan fræðslumála var samþykkt í bæjarstjórn fimmtudaginn 21. janúar 2010. Nú liggur fyrir að ekki er þörf á verulegum stækkunum í sameinuðu sveitarfélagi miðað við núverandi íbúafjölda. Kynningarfundur um fyrirhugaðar stækkanir fór fram í júní á árinu 2011. Niðurstaðan er að eitt skólahús skyldi vera á Siglufirði og eitt á Ólafsfirði.
Uppbygginu á Ólafsfirði er nú lokið í samræmi við þessar hugmyndir. Hins vegar á eftir að byggja verknámsstofur og mötuneyti fyrir nemendur á Siglufirði. Ætlunin var að hefja framkvæmdir sem fyrst á árinu 2013 og hefur tillaga að viðbyggingu verið hönnuð. Tillagan var grenndarkynnt hagsmunaaðilum og bárust nokkrar athugasemdir.
Í ljósi athugasemda verður að telja eðlilegt að skoða betur deiliskipulag reitsins.
Bæjarráð telur að við þá vinnu verði tekið mið af núverandi húsnæðisþörf grunnskólans. Vísast hér í samþykkt bæjarstjórnar frá 14. september 2011.
Bæjarráð telur þar með ekki rétt að ráðast í eins viðamiklar framkvæmdir og teikningar frá 1994 gerðu ráð fyrir. Verði síðar þörf á stækkun s.s. vegna fjölgunar eða breyttra aðstæðna verði deilskipulagið aftur tekið til endurskoðunar.
Vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar, við grunnskólann á Siglufirði, er rétt að taka fram að á lóðinni Eyrargötu 1 stóð hús sem bæjarfélagið lét rífa.
Það hús bar nafnið "Rauða myllan". Húsið var tveggja hæða og var nánast í sömu fjarlægð frá Eyrargötu 3 og fyrirhuguð viðbygging kemur til með að rísa.

Bæjarráð felur jafnframt skipulags- og umhverfisnefnd að höfðu samráði við arkitekta og Landslög/Ívar Pálsson að svara framkomnum athugasemdum.

Einnig lögð fram tillaga Landslags ehf., dags. 5.2.2013, að skipulagslýsingu fyrir reitinn.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að fela Landslagi/Ómar Ívarsson, að vinna tillögu að deiliskipulagi af lóð Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði og götureitsins sem skólinn stendur á. Í skipulagsvinnunni verði m.a. skoðað skuggavarp fyrirhugaðrar viðbyggingar við skólann og bílastæðamál og haft samráð við hagsmunaaðila eins og skipulagslög gera ráð fyrir.

Deiliskipulagið sé í fullu samræmi við Aðalskipulag Fjallabyggðar.

Jafnframt er samþykkt að leita umsagnar Skipulagsstofnunar um fyrirliggjandi tillögu að skipulagslýsingu og kynna hana fyrir almenningi.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 151. fundur - 06.03.2013

Lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir grunnskólareit á Þormóðseyri sem afmarkast af Norðurgötu, Eyrargötu, Vetrarbraut og Aðalgötu. Lagt er til að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þ.e. í Lögbirtingablaðinu og með áberandi hætti í dagblaði sem gefið er út á landsvísu. Athugasemdafrestur skal eigi vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.

 

Erindi samþykkt.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 153. fundur - 30.04.2013

Deiliskipulagstillaga fyrir grunnskólareit á Þormóðseyri á Siglufirði var í auglýsingu skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, frá 15. mars til og með 26. apríl 2013.

Tvær athugasemdir bárust, frá Þóri Stefánssyni og Sigurlaugu Guðjónsdóttur annars vegar og hins vegar frá Advel lögmönnum f.h. Sögu Ráðgjafar ehf., þinglýsts eiganda fasteignarinnar að Eyrargötu 3.

 

Athugasemdirnar eru hér með lagðar fram til kynningar og afgreiðslu á deiliskipulaginu frestað til næsta fundar.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 154. fundur - 08.05.2013

Á 153. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var afgreiðslu á deiliskipulaginu grunnskólareitur á Þormóðseyri frestað vegna framkominna athugasemda sem komu á auglýsingartíma deiliskipulagstillögunnar.

 

Lögð er fyrir nefndina greinargerð sem lögfræðingur bæjarins hefur unnið í samráði við tæknideild Fjallabyggðar og skipulagsráðgjafa bæjarins með svörum við þeim athugasemdum sem bárust vegna deiliskipulagstillögunnar.

 

Af öllum framlögðum gögnum samþykkir nefndin deiliskipulagið með þeirri viðbót að gangstétt við bílastæði við Norðurgötu verði færð inn fyrir bílastæðin og felur tæknideild að senda það til Skipulagsstofnunar til yfirferðar.

Nefndin felur jafnframt tæknideild að senda framkomna greinargerð með svörum við athugasemdum til þeirra sem sendu inn athugasemdir.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 158. fundur - 24.07.2013

Lagt fram til kynningar bréf frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en borist hefur kæra þar sem kærð er ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar um samþykkt deiliskipulags grunnskólareits á Þormóðseyri, Siglufirði.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 309. fundur - 27.08.2013

Minnisbréf arkitekta lagt fram til kynningar, er varðar framkvæmdir við Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði.

Einnig var lagt fram svar sveitarfélagsins til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna kæru á samþykkt bæjarstjórnar á deiliskipulagi fyrir grunnskólareit á Þormóðseyri, Siglufirði.