Sex athugasemdir bárust tæknideild.
Frá Gísla Kjartanssyni
"Undirritaður f.h. fimm eigenda einb. hússins að Hlíðarvegi 1c, Siglufirði, hafnar því að veitt verði leyfi til að reisa þrjú smáhýsi/gestahús á lóð Hlíðarvegs 1.
Þar sem veginum að húsum nr. 1c,3c,7b og 7c við Hlíðarveg hefur ekki verið komið í endanlegt horf, tel ég að ekki sé stætt á að leyfi meiri umferð um þann hluta vegarins sem líklegt er að verði með tilkomu fleiri bygginga á svæðinu.
Ennig tel ég staðsetningu húsanna á lóðinni óviðunandi með öllu."
Frá Önnu M. Jónsdóttur
"Ég undirrituð sem íbúi Fjallabæjar, mótmæli smáhýsi, sem íbúi Hlíðarvegar 1, er að sækja um að fá að reisa.
Mér finnst ekki gott að gefa fordæmi fyrir sumarhúsum um allan bæ, þegar búið er að skipuleggja svæði, uppá Saurbæjarás sumarbústaða byggð."
Frá nokkrum íbúum í Siglufirði
"Nýlega samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins að vísa til grenndarkynningar umsókn húseiganda að Hlíðarvegi 1 á Siglufirði um að reisa smáhýsi á lóð sinni. Samkvæmt bréfi sveitarfélagsins náði kynningin til eigenda og leigutaka í húsum nr. 1c, 3, 3c, 4, 5, 7b, og 7c við Hlíðarveg. Undirritaðir íbúar í sveitarfélaginu eru ekki í hópi þeirra sem kynningin náði til, en samkvæmt skipulagslögum er sveitarstjórn í sjálfsvald sett að meta hverjir þeir aðilar eru sem telja megi þeirra sem hagsmuna hafi að gæta.
Engu að síður telja undirritaðir að þeim sé rétt og skylt að gera athugsemdir við fyrirhugaða framkvæmd, þar sem um sé að ræða stefnubreytingu á skipulagsmálum, verði hún samþykkt. Ljóst má vera af kynningu á umsókninni að þarna sé um að ræða hús af samskonar hönnun og algeng eru í sumarhúsabyggðum þeim sem víða er að finna um landið. Samkvæmt deiliskipulagi Fjallabyggðar er skipulagt sérstakt svæði fyrri sumarhús á Saurbæjarás. Við teljum að með því að heimila framkvæmdina sé í raun verið að heimila byggingu slíkra húsa innan íbúðarhúsabyggðar á Siglufirði sem gæti leitt til þess að fjöldi slíkra húsa myndi rísa á næstu árum og breyta ásýnd byggðarinnar úr bæjarfélagi og í sumarhúsabyggð.
Að auki teljum við að atvinnurekstur af þessu tagi henti mjög illa við götu eins og Hlíðarveg þar sem honum muni óhjákvæmilega fylgja bæði aukin umferð og verulegt ónæði fyrir íbúa götunnar og nágrenni þess."
Frá eigendum Hlíðarvegar 7C
" Við, eigendur Hlíðarvegar 7c viljum koma á framfæri athugasemdum við sumarhús sem á að setja við Hlíðarveg 1. Við höfum ekkert á móti húsunum sem á að setja á lóðina en hins vegar höfum við áhyggjur af þáttum eins og sorphirðu, umferð í og við húsin og aðkomu neyðaraðstoðar við húsin.
1. Við íbúar og eigendur húsa við Hlíðarveg höfum búið við það að sorp sé ekki tekið við húsin og ástæðan liggur í því sem okkur er að sagt að srophirðubíll bæjarins kemst ekki upp brekkuna og getur því ekki tekið sorpið okkar. Því þurfum við að sjá sjálf um að koma sorpinu okkar í sorphirðu bæjarins. Því langar okkur að vita hvort að hugað hafið verið að því hvernig verði með sorphirðu við húsin, hvort að sorptunna verði við hvert hús og hvort að hugsað hafi verið fyrir því hvar og hvernig sorpið verður losað?
2. Annað sem veldur töluverðum áhyggjum er hvað umferð að húsunum er hugsuð? Það er að segja hvort að bílastæði við húsin verði í eða við Hlíðarveg þar sem vegurinn er þröngur, í frekar slæmu ásigkomulagi og bílastæði við götuna eru enginn efst í götunni. Vegurinn, eins og í því ásigkomulagi og hann er í dag mun ekki hafa undan við frekari umferð og ef umferð á að vera í brekkunni í Hlíðarveg þarf að bæta ástand vegarins til muna svo það sé bara hægt.
3. Þriðja atriðið lítur að aðkomu neyðarbíla, það er slökkviliðsbíls eða sjúkrabíls við húsin ef umferð að húsunum verður á Hlíðarvegi sérstaklega þar sem sorphirðubíll kemst ekki upp veginn þá er hættan töluverð ef kviknar í einhverju húsanna og neyðarbíll kemst ekki að.
Á meðan óvissa er enn með þessa þætti í þessu máli þá erum við ekki samþykk því að þessi hús verði sett við götuna."
Frá Friðbirni Björnsyni og Kristínu Guðbrandsdóttur
" Vísað er í bréf tæknifulltrúa Fjallabyggðar dags. 26.09.2011 varðandi ofangreint efni.
Við undirrituð, eigendur húseignarinnar að Hlíðarvegi 3c, lýsum hér með yfir andstöðu okkar við að veitt verði leyfi til að reisa þrjú gestahús á lóðinni að Hlíðarvegi 1.
Í fyrsta lagi teljum við að ekki sé fært að fara í slíkar framkvæmdir fyrr en vegurinn upp að húsunum við Hlíðarveg nr. 1c, 3c, 7b og 7c hefur verið endurhannaður og honum komið í endanlegt horf.
Í öðru lagi teljum við staðsetningu gestahúsanna óviðunandi, þ.e. gestahús nr. 2 og 3 eru of ofarlega í lóðinni og þannig of nálægt húsi nr. 1c og fyrirhuguðu vegarstæði."
Frá Arnfinnu Björnsdóttur og Eysteini Aðalsteinssyni
"Við eigendur tveggja íbúða að Hlíðarvegi 3 Sigluf. viljum taka það fram varðandi þessa grenndarkynningu að okkur fellur ekki alkosta að hús nr. 3 á meðfylgjandi teikningu stendur alltof nálægt húseign okkar og ólöglega við lóðarmörk.
Ef þessi umsókn verður leifð mætti færa þetta hús suður fyrir húsið (að Hlíðarvegi 1) í trjágróður þar eða bara sleppa því.
Hin tvö húsin á teikningunni virðast falla inn í trjágróður þar sem þeim er ætlað að standa. Einnig finnst okkur að meta verði hvort þessi smáhýsabyggð, inni í svo friðsælu íbúahverfi eins og er, muni rýra verðmæti íbúðaeigna okkar og hvort ekki sé verið að skapa þarna fordæmi smáhýsabyggðar í íbúðabyggðinni, sem er búið að skipuleggja og auglýsa til umsóknar á Saurbæjarás handan fjarðar."
Nefndin hafnar erindinu vegna framkominna athugasemda eftir grenndarkynningu.