Byggðakvóti fiskveiðiársins 2010/2011

Málsnúmer 1009179

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 186. fundur - 05.10.2010

Í erindi frá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu dagsett 27. september er sveitarstjórnum gefinn kostur á að sækja um byggðakvóta, fyrir fiskveiðiárið 2010/2011.
Bæjarráð samþykkir fela bæjarstjóra að sækja um kvóta.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 197. fundur - 11.01.2011

Lagt fram bréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu varðandi umsókn um byggðakvóta fiskveiðiársins 2010/2011. Úthlutun ráðuneytisins er eftirfarandi: Siglufjörður 150 þorskígildistonn og Ólafsfjörður 58 þorskígildistonn.

Í 10. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og reglugerð frá 17. desember 2010 um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga og reglugerðar frá 17. desember 2010, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2010/2011 er kveðið á um það í fyrsta lagi hvaða skilyrði fiskiskip og útgerðir þeirra þurfa að uppfylla til að fá loforð um úthlutun sbr. 1. gr. og í öðru lagi hvernig að úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa skuli staðið sbr. 4. gr. reglugerðarinnar.  Ráðuneytið leggur ríka áherslu á að byggðakvóta sé landað til vinnslu innan viðkomandi byggðarlags/sveitarfélags.  Framangreindar reglur samkvæmt reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa eru almennar og gilda um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa í öllum byggðarlögum nema frá þeim sé vikið.

Vilji sveitarfélagið leggja til við ráðuneytið að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta, skal skila inn tillögum þar að lútandi eigi síðar en 18. janúar 2011.
Bæjarráð samþykkir að vísa málum er varðar byggðakvóta til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 198. fundur - 14.01.2011

59. fundur bæjarstjórnar samþykkti samhljóða að vísa þessum dagskrárlið til endanlegrar afgreiðslu í bæjarráði.

Í bréfi frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er eftirfarandir úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2010/2011 tilkynnt:
Siglufjörður 150 þorskígildistonn,
Ólafsfjörður 58 þorskígildistonn.

Einnig kemur þar fram að vilji sveitarfélagið leggja til við ráðuneytið að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta, skal skila inn tillögum þar að lútandi eigi síðar en 18. janúar 2011.
Bæjarráð tekur undir áherslur ráðuneytisins sem leggur ríka áherslu á að byggðakvóta sé landað til vinnslu innan viðkomandi byggðarlags/sveitarfélags.

Bæjarráð fagnar þeirri breytingu sem tekin hefur verið inn í reglugerðina þar sem nú segir;
"Með vinnslu á bolfiski skv. 1. mgr. er átt við flökun, flatningu og eða herslu". 

Bæjarráð telur best að halda sig að mestu leyti við þær reglur sem voru í gildi við síðustu úthlutun. Þó með breytingum hvað varðar hámark og vinnslu afla.

Bæjarráð samþykkir eftirfarandi tillögu að sérúthlutunarreglum fyrir Fjallabyggð vegna byggðakvóta fiskveiðiársins 2010/2011.

1.   Að  ekkert fiskiskip hljóti meiri afla en 50 þorskígildislestir á Siglufirði og  40 þorskígildislestir í Ólafsfirði.

2.   Að í stað orðalagsins "hlutaðeigandi byggðarlaga" í upphafi 6. greinar reglugerðar nr. 82/2010 komi "sveitarfélagsins".  Greinin orðist því þannig breytt: "Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi sveitarfélags þ.e. Fjallabyggðar afla sem nemur, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt skv. vigtunar- og ráðstöfunarskýrslum sem borist hafa Fiskistofu".

Rök fyrir ofangreindum tillögum eru þessi:
1. Fiskveiðiárið 2009/2010 tókst ekki að úthluta byggðakvóta í Ólafsfirði miðað við 25 tonna hámark með þeim afleiðingum að  hluti byggðakvótans var ekki veiddur.Hækkun hámarksins er hugsuð til að minnka líkur á að þetta gerist aftur og tryggja jafnari skiptingu. Jafnframt teljum við að breytingin muni flýta fyrir úthlutun.

2. Tillaga þessi hefur áður hlotið samþykki vegna fyrri fiskveiðiára. Þar sem fáir vinnsluaðilar eru í hvoru byggðarlagi er fákeppni á kaupendamarkaði. Með því að horfa til sveitarfélagsins alls í stað byggðarlaga er opnað á samkeppni milli kaupenda og möguleikar útgerðaaðila á sölu auknir.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 214. fundur - 17.05.2011

Lagt fram bréf frá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti dags. 9. maí en um er að ræða viðbrögð við bréfi Fjallabyggðar frá 7. mars 2011.

Niðurstaða bréfsins er á þá leið að ekki sé unnt að verða við beiðni sveitarfélagsins um breytingu á reglum um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu Fjallabyggð sem settar voru með auglýsingu nr. 46/2011.

 

Bæjarráð telur rétt að taka eftirfarandi fram:

1. Gerðar eru athugasemdir við þann tíma sem það tók ráðuneytið að komast að niðurstöðu í máli þessu.

2. Gerðar eru athugasemdir við óskir ráðuneytisins um upplýsingar frá Fjallabyggð um hvort breytingarnar myndu hafa áhrif á aðstöðu einstakra útgerða eða úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa í sveitarfélaginu eða einstökum byggðarlögum þess eins og þetta er orðað.
Augljóst má vera eins og kom fram í svarbréfi sveitarfélagsins að breytingarnar myndu hafa áhrif, en bæjaryfirvöld höfðu ekki forsendur til að meta nákvæmlega hverjar þær yrðu.

Ef einhver getur metið áhrif slíkra breytinga þá ætti það að vera ráðuneytið sjálft með sínar hjálparstofnanir. Þessar upplýsingar um umsækjendur - úthlutunarskilmála og kvaðir í þessum efnum eru samankomnar hjá þessum aðilum.