12.12.2002
Bæjaryfirvöld á Siglufirði hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:Samgönguráðuneytið hefur kynnt ákvörðun um útboð vegna jarðgangagerðar á austur og norðurlandi í vetur og framkvæmdaáætlun verkanna. Bæjaryfirvöld á Siglufirði fagna því heilshugar að nú liggi fyrir endanleg ákvörðun ríkisstjórnar og ráðuneytis um útboð jarðganga um Héðinsfjörð milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar í febrúar 2003 og í framhaldi af því framkvæmdir við verkið. Er mikilsvert að með þeirri tilhögun sem ákveðin hefur verið helst sú hagkvæmni af samlegðaráhrifum beggja verkefnanna sem gert var ráð fyrir með sameiginlegu útboði. Það hlýtur ávallt að vera fagnaðarefni þegar skynsamlegar ákvarðanir eru teknar í samgöngumálum þjóðarinnar en áætluð þjóðhagsleg arðsemi af byggingu jarðganga um Héðinsfjörð er um 14,5% samkvæmt skýrslu Vegagerðarinnar um umhverfismat framkvæmda. Siglufirði 12. desember 2002Guðmundur Guðlaugssonbæjarstjóri