visittrollaskagi.is komin í loftið

Skjáskot af heimsíðunni visittrollaskagi.is
Skjáskot af heimsíðunni visittrollaskagi.is

Í dag, föstudaginn 13. febrúar kl. 13:00, var formleg opnun á heimasíðunni www.visittrollaskagi.is í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.
Vefurinn er samstarfsverkefni Dalvíkurbyggðar, Fjallabyggðar og Ferðatrölla sem eru samtök ferðaþjónustuaðila á svæðinu.

Um er að ræða ferðavef sem ætlað er að ná fram sérstöðu Tröllaskagans og það sem laðar ferðamenn að (náttúra, saga, menning). Megin markmið með visittrollaskagi.is er að fjölga innlendum og erlendum ferðamönnum á svæðinu allt árið um kring og lengja þann tíma sem ferðamenn stoppa á svæðinu. Það á að gera með því að auka sýnileika svæðisins á vefnum og draga þar betur fram sérstöðu svæðisins.
Á vefnum er að finna upplýsingar um sjávarbyggðir, menningu, útivistarmöguleika, nálægð fjalla við sjó þar sem t.d. er hægt að skíða frá fjallatoppum niður til sjávar.

Á vefnum eru birtar upplýsingar á aðgengilegan hátt yfir þjónustuaðila á svæðinu sem sinna afþreyingu, gistingu og veitingum.
Vefurinn byggir á MOYA vefumsjónarkerfi frá STEFNU-hugbúnaðarhúsi og er vefurinn settur upp með snjalltækjaviðmóti (Responsive web design) þannig að hægt er að skoða vefinn í snjallsími, spjaldtölva og í venjulegum tölvum.

Við opnunina voru mættir fulltrúar sveitarfélaganna, forsvarsmenn Ferðatrölla, fulltrúar Markaðsstofu Norðurlands og ferðaþjónustuaðilar.
Ávarp fluttu Bjarni Th. Bjarnason sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, Steinunn María Sveinsdóttir formaður bæjarráðs Fjallabyggðar, Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og Freyr Antonsson formaður Ferðartrölla.
Í máli þeirra allra kom fram mikil ánægja með útkomuna úr þessu sameiginlega verkefni og binda aðilar miklar vonir um að ferðavefurinn muni auka á sýnileika svæðisins og í framhaldinu muni heimsóknum ferðamanna, jafnt innlendra sem erlendra, fjölga.

Í upphafi verkefnisins var myndaður stýrihópur sem í sátu Kolbrún Reynisdóttir, Freyr Antonsson og Finnur Yngvi Kristinsson frá Ferðatrölla, Margrét Víkingsdóttir frá Dalvíkurbyggð og Kristinn J. Reimarsson frá Fjallabyggð. Kolbrún var svo ráðin verkefnisstjóri og hélt hún utan um verkefnið fyrir hönd hópsins. Töluverð vinna liggur að baki gerð svona heimasíðu og var stýrihópnun þakkað sérstaklega fyrir góða vinnu.

Vefurinn mun halda áfram að þróast og eru allar ábendingar um það sem betur má fara vel þegnar og eru þeir sem vilja koma ábendingum á framfæri bent að senda þær á netföngin; info@dalvikurbyggd.is og info@fjallabyggd.is

Frá opnun heimasíðunnar visittrollaskagi.is
Á myndinni frá vinstri: Kristinn J. Reimarsson markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar, 
Freyr Antonsson formaður Ferðatrölla, Bjarni Th. Bjarnason sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar,
Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og Steinunn María Sveinsdóttir
formaður bæjarráðs Fjallabyggðar.