Kallað er eftir stuðningsyfirlýsingum frá öllum áhugasömum
Elskar þú sund og vilt styðja við tilnefningu sundlaugamenningar á Íslandi á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf? Þitt framlag kallar ekki á mikla vinnu en gæti orðið til þess að íslensk sundlaugamenning verði samþykkt á yfirlitsskrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf. Það eina sem þú þarft að gera er að skrifa stutta lýsingu á því hvaða þýðingu sundlaugamenningin og sú hefð að fara í sund hefur fyrir þig. Stuðningsyfirlýsingin mun fylgja umsókn Íslands til UNESCO.
Einföld yfirlýsing sem útlistar mikilvægi íslenskrar sundlaugamenningar
Kallað er eftir einföldum en innihaldsríkum yfirlýsingum frá einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og sveitarfélögum þar sem meðal annars er hægt að svara eða velta upp eftirfarandi: Hvað er sund fyrir þér? Hvað gerir þú í sundi? Hvaða tengsl hefur þú við hefðina og hvaða þýðingu hefur sundhefðin fyrir þér? Hvernig vilt þú styðja við hefðina til framtíðar? Hvaða merkingu hefði það fyrir þig ef að íslenska sundhefðin kæmist inná yfirlitsskrá UNESCO um óáþreifanlegan menningarf? Stuðningsyfirlýsingin má vera bæði á íslensku eða ensku og gott að tilgreina sérstaklega nafn listans sem tilnefnt er til. Nafnið er: UNESCO´s Representative List of Intangible Cultural Heritage. Ef um stuðningsyfirlýsingu frá félagasamtökum, stofnunum eða sveitarfélögum er að ræða er gott að lýsa aðkomu þeirra að sundlaugamenningunni, hvers vegna hefðin er þeim mikilvæg og hvernig þau vilja styðja við að sundlaugamenningin haldi áfram að blómstra á Íslandi.
Ferlið er einfalt
- Skrifaðu stutta yfirlýsingu (helst á ensku en íslenska líka í lagi)
- Skrifaðu undir yfirlýsinguna með prentstöfum og eigin skrift
- Sendu skannað eintak/pdf. af skjalinu á netfangið: sigdag@hi.is
- Stuðningsyfirlýsingin þín mun fylgja umsókninni til UNESCO
- Gott er að stuðningsyfirlýsingar berist fyrir lok janúar 2024
Af hverju skiptir þinn stuðningur máli?
Mikilvægt er að hverri tilnefningu inn á yfirlitsskrá UNESCO um óáþreifanlegan menningararf fylgi stuðningsyfirlýsingar frá þeim sem er annt um hefðina. Það sýnir að hefðin er lifandi og mikilvæg því samfélagi sem hún sprettur upp úr. Hægt er að leita frekari upplýsinga hjá verkefnisstjóra Lifandi hefða í gegnum netfangið: sigdag@hi.is
Vefur Lifandi hefða á Íslandi – hefðir lifa vegna þess að þeim er miðlað mann fram af manni. Þekkir þú lifandi hefðir? Á þessum vef er hægt að deila og miðla upplýsingum um lifandi hefðir á Íslandi. Taktu þátt í að skapa mikilvæga þekkingu um fjölbeytta menningu.