Velheppnuð afmælishátíð 6. maí

Hátíðarhöld Tónlistarskóla Siglufjarðar í tilefni 30 ára starfsafmælisins, tókust í alla staði mjög vel. Þau hófust í sól og sumarblíðu með skemmtun á Torginu kl. 16.00.Þar lék blásarasveit á vegum skólans sem skipuð er núverandi og fyrrverandi nemendum, létt sumarlög. Síðan léku nemendur á hin ýmsu hljóðfæri og einnig sungu þeir fyrir viðstadda. Þá sungu einnig Kvenna – og Karlakórinn. Fjölmennt var og hátíðarstemning.Kl. 17.00 færðist dagskráin inn í Tónlistarskólann, skólastjóri flutti stutt ávarp í tilefni afmælisins og síðan héldu nemendur áfram tónlistarflutningi á meðan gestir gæddu sér á glæsilegri afmælistertu og fleiru góðgæti frá meisturunum í Aðalbakaríi. Skólanum bárust góðar kveðjur og blóm í tilefni dagsins og einnig rausnarleg peningagjöf frá Bæjarstjórn Siglufjarðar til kaupa á hljóðfærum.Fullt var út úr dyrum í skólanum en fólk lét það ekki á sig fá, heldur gaf sér tíma til að skoða húsnæðið og njóta veitinganna.Ítrekaðar eru þakkir til þeirra fjölmörgu sem áttu þátt í að gera daginn eftirminnilegan.Skólastjóri