Trilludagar voru haldnir á Siglufirði í þriðja sinn um nýliðna helgi. Þóttu þeir takast einstaklega vel og var góð stemning á bryggjunni allan daginn. Talið er að um 1500 manns hafi lagt leið sína niður á höfn og notið þess sem í boði var.
Um siglingarnar sáu átta eldhressir trillukarlar en gestum hátíðarinnar var boðið að stíga um borð í bátana og sigla út á fjörðinn þar sem rennt var fyrir fisk. Þegar í land kom var fólki boðið að grilla aflann og stóðu vaskir Kiwanismenn vaktina við flökun og á grillinu. Heitt grænmeti var borið fram með fisknum í boði Kjörbúðarinnar á Siglufirði. Gafst þetta mjög vel og var þátttaka framar öllum vonum en um 500 manns nýttu sér tækifæri að fara í siglingu og að um 800 manns hafi gætt sér á nýveiddum fisk. Milli klukkan 16:00 og 18:00 var svo öllum boðið til grillveislu þar sem grillaðar voru pylsur í boði Kjörbúðarinnar.
Fleira var í boði á Trilludögum en þar má meðal annars nefna Sirkus Íslands, Síldargengið fór rúnt um miðbæinn og var með síldarsöltun við Síldarminjasafnið, bryggjuball og harmonikkuleik. Börnum var boðið að fara á hestbak og tónlistarmenn úr heimabyggð komu fram á sviði en það voru þeir Tryggvi og Júlíus Þorvaldssynir, Sturlaugur Kristjánsson og Daníel Pétur Daníelsson. Strandblakmót Sigló Hótel fór fram á sama tíma á Strandblakvellinum og Kaffi Rauðka var með fjölskylduhlaðborð allan daginn og götugrill. Landabandið hélt svo uppi sannkallaðri Trilludagsstemningum á Bryggjuballinu um kvöldið.
Fjallabyggð þakkar kærlega trillueigendum og sjómönnum, Kjörbúðinni á Siglufirði, félögum úr Kiwanis, Fiskmarkaðnum á Siglufirði og öllum þeim fjölmörgu sem að hátíðinni komu en þessir aðilar gerðu hátíðina mögulega og eins ánægjulega og raun bar vitni.
Fleiri myndir frá hátíðinni eru aðgengilega hér.