Veiga Grétarsdóttir kayakræðari og transkona komin til Siglufjarðar

Veiga Grétarsdóttir, kayakræðari og transkona frá Ísafirði rær nú á kayak umhverfis Ísland og safnar áheitum fyrir Píeta samtökin, sem sinna þjónustu við fólk í sjálfsvígshættu, með sjálfsskaða og aðstandendur þeirrar.

Veiga kom til Siglufjarðar um kl. 18:00 í gær. Björgunarsveitin Strákar tók á móti henni við minni Héðinsfjarðar og Gestur Hansa og fjölskylda úr Top Mountaineering mættu henni við Selvíkurvita og fylgdu henni einnig síðasta spölinn. Fjölmenni var við fjöruna á Vesturtanganum við komu Veigu og hún boðin velkomin.  Sigló Hótel bauð Veigu svo gistingu í nótt.

Í för með Veigu er Óskar Páll Sveinsson sem er að vinna að heimildarmynd um ferðalagið.

Veiga lagði af stað frá Ísafirði þann 14. maí síðastliðinn og fer rangsælis um landið, á móti straumnum og er þetta í fyrsta sinn sem einhver ræðst í slíkt afrek. Veiga áætlar að ljúka hringnum um miðjan ágúst. 

Fjallabyggð óskar Veigu innilega til hamingju með árangurinn hingað til og óskar henni velgengni og farsældar á leið sinni til Ísafjarðar.

Veiga mun halda fyrirlestur í dag þriðjudaginn 6. ágúst kl. 20:00 í Ráðhússalnum að Gránugötu 24, þar sem hún mun fjalla um reynslu sína af vanlíðan, sjálfsvígshugsunum, kynleiðréttingarferlinu og hvernig kajaksiglingar hafa hjálpað henni að finna tilgang með lífinu.

Fundurinn er opinn öllum.

Hægt er að fylgjast með ferðum Veigu og nákvæmri staðsetningu hér: https://eur-share.inreach.garmin.com/veiga

Frekari upplýsingar um Veigu og verkefnið hennar má finna á eftirfarandi vefslóðum: http://www.veiga.is og https://pieta.is/a-moti-straumnum/