Veiðileyfagjald renni til sveitarfélaga

Bæjar- og sveitarstjórar átta byggðarlaga hafa ritað undir áskorun til ríkisstjórnar og Alþingis um að rétta af hag sjávarbyggða með því að láta veiðileyfagjald af sjávarútveginum renna til sveitarfélaga.Þá vilja þeir að skuldir í félagslega íbúðakerfinu verði afskrifaðar eða yfirteknar af ríkinu.Í áskoruninni eru lagðar fram tillögur um aðgerðir vegna stöðu sjávarbyggða. Segir að við innleiðingu kvótakerfisins hafi aðgangurinn að auðlindinni verið takmarkaður og tækifæri til auðsköpunar hafi færst frá sjávarbyggðum til annarra svæða. Flest sveitarfélög sem byggi afkomu sína á sjávarútvegi hafi misst fólk, og um leið tekjur, þó verkefnum hafi ekki fækkað. Segir jafnframt að það sé ekki hlutverk sjávarbyggðanna að greiða fyrir þá hagræðingu sem hlýst af breytingum á stjórn fiskveiða. Það er því mat þeirra sveitarstjóra sem undir áskorunina rita að grípa verði til sértækra aðgerða, svo sjávarbyggðirnar fái staðið undir þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að inna af hendi."Við teljum það bæði eðlilega og sanngjarna kröfu að veiðileyfagjald sem fyrirtækjum í sjávarútvegi er gert að greiða renni til sveitarfélaga sem byggja afkomu sína á nýtingu auðlinda hafsins. Sú krafa er í samræmi við hugmyndir Auðlindanefndar á sínum tíma."Ríkið yfirtaki skuldir félagslega íbúðakerfisinsEins er bent á það í áskoruninni að hundruð starfa sem tengjast stjórn fiskveiða á beinan eða óbeinan hátt hafi flust á höfuðborgarsvæðið, einkum í tengslum við svokallaðan eftirlitsiðnað. Það hafi varla verið markmiðið með breytingum á stjórn fiskveiða að flytja störf af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.Ennfremur segir að íbúaþróunin hafi haft veruleg áhrif á fjárhag sveitarfélaganna, m.t.t. félagslega íbúðakerfisins. Fólksfækkun hafi leitt til minni nýtingar í kerfinu, íbúðir standi auðar og viðhaldi þeirra því ekki sinnt sem skyldi. Kostnaður sé því meiri en tekjur og munurinn í raun að aukast. Gera bæjarstjórarnir tillögu um að skuldir í félagslega íbúðakerfinu verði afskrifaðar eða eignir og skuldir í kerfinu yfirteknar af ríkinu. Undir áskorunina skrifa Runólfur Birgisson, bæjarstjóri á Siglufirði, Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ, Magnús B. Jónsson sveitarstjóri Höfðahrepps, Reinhard Reynisson bæjarstjóri á Húsavík, Tryggvi Harðarson bæjarstjóri á Seyðisfirði og Albert Eymundsson bæjarstjóri á Hornafirði.Frétt á mbl.is