Vegna umfjöllunar um stjórnsýslu – og rekstrarúttekt Fjallabyggðar

Umfjöllun og athugasemdir sem birtar hafa verið á fréttamiðlum og samfélagsmiðlum um stjórnsýslu– og rekstrarúttekt sem Strategía gerði að beiðni Fjallabyggðar á síðasta ári gefa tilefni til þess að leiðrétta ýmislegt og draga fram efnislega staðreyndir málsins.

Á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þann 26. janúar 2024 var samþykkt að fela bæjarstjóra að óska eftir tilboðum vegna stjórnsýslu– og rekstrarúttektar á Fjallabyggð en áður hafði bæjarstjórn Fjallabyggðar lagt fram tillögu um framkvæmd slíkrar úttektar. Það var því alfarið að frumkvæði kjörinna fulltrúa í Fjallabyggð að óskað var eftir slíkri úttekt í þeim tilgangi að kortleggja hvað betur mætti fara og bæta stjórnsýslu sveitarfélagsins. Engir eftirlitsaðilar með rekstri sveitarfélaga höfðu frumkvæði að eða óskuðu eftir úttektinni, það var bæjarstjórn Fjallabyggðar sem það gerði.

Í framhaldinu var óskað eftir tilboðum í úttektina og í kjölfar þess ferlis og yfirferð á tilboðum var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 22. febrúar að taka tilboði Strategíu. Beiðni um úttektina og staðfesting bæjarstjórnar Fjallabyggðar á henni er í samræmi við úttektir fjölmargra sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem hafa það að markmiði að bæta stjórnun og rekstur til hagsbóta fyrir íbúa, starfsmenn og stjórnendur.

Bæjarfulltrúar og stjórnendur unnu náið með ráðgjöfum Strategíu á meðan úttektinni stóð auk þess sem innri og ytri hagaðilar Fjallabyggðar voru kallaðir til samstarfs við vinnslu úttektarinnar.

Úttektin er opinbert gagn, og eins og áður segir, ætlað að benda á þau atriði í stjórnsýslu og rekstri Fjallabyggðar sem betur mega fara. Úttektinni er jafnframt ætlað að veita stjórnendum ákveðið aðhald og vera verkfæri fyrir kjörna fulltrúa, stjórnendur, starfsmenn og íbúa Fjallabyggðar til þess að bæta stjórnsýslu. Umbætur á stjórnsýslunni eru augljóslega ekki bundnar við hvorki flokkslínur eða kjörtímabil heldur eru verkefni sem eru ávallt til skoðunar og eftirfylgni. Fjárhagslegur rekstur Fjallabyggðar er traustur og sveitarfélagið í öfundsverðri stöðu hvað það varðar en mikilvægt er að viðhalda þeirri stöðu og kemur það fram í úttektinni.

Í þeirri umfjöllun sem hefur verið dregin fram eru dregnar rangar ályktanir og sett fram gildishlaðið orðfæri sem hvergi er að finna í úttekt Strategíu. Framsetning umfjöllunar í sumum tilfellum er með þeim hætti að ekki er ljóst hvað af því sem haldið er fram megi rekja til umræddar úttektar eða hvað eru ályktanir og orðfæri höfunda hverju sinni. Illa verður séð hvaða tilgangi slík umfjöllun þjónar en efnisleg umfjöllun og málefnaleg gagnrýni er hins vegar öllum til góðs.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar, stjórnendur og starfsmenn hafa unnið að umbótum í samræmi við úttektina og þær ábendingar sem þar koma fram og munu áfram vinna að þeim umbótum sem að þeim snúa. Úttektin og ábendingar sem fram koma í henni, eru eðli máls samkvæmt ætlað til uppbyggingar en ekki niðurrifs og eftir því munu bæjaryfirvöld áfram starfa í góðri samvinnu við alla sem að koma.