Orðsending frá Orkusölunni til íbúa Fjallabyggðar.
Kæru viðskiptavinir.
Föstudaginn 21. febrúar sl. varð rekstrartruflun á dreifikerfi RARIK sem gerði það að verkum að Fjallabyggð varð að mestu rafmagnslaus í um fjórar klukkustundir. Við slíkar aðstæður gegnir Skeiðsfossvirkjun, sem er ein af virkjunum Orkusölunnar, mikilvægu hlutverki í afhendingu raforku inn á dreifikerfi RARIK.
Þrátt fyrir að Orkusalan beri ekki ábyrgð á dreifikerfi RARIK eða uppbyggingu þess gerum við okkur grein fyrir því að rétt samspil virkjunarinnar og dreifikerfis RARIK er mikilvægt og tökum við hlutverk okkar vegna þess alvarlega.
Virkjunin var í fullum rekstri þennan dag en sló út við rekstrartruflunina eins og eðlilegt er við slíkar aðstæður og varnir hennar og dreifikerfis RARIK gera ráð fyrir. Virkjunin var tafarlaust keyrð upp aftur og var að fullu til reiðu fyrir dreifikerfi RARIK frá þeim tímapunkti.
Orkusalan telur að sá tími sem tók að koma rafmagni á Fjallabyggð eftir rekstrartruflunina sé óásættanlegur fyrir alla aðila og hafa sérfræðingar fyrirtækisins nú þegar átt fund með RARIK varðandi lausnir svo koma megi í veg fyrir sambærilegt ástand í framtíðinni.
Ljóst er að nokkrir þættir hafa breyst á síðustu árum sem gætu haft áhrif á þann tíma sem tekur að koma rafmagni á Fjallabyggð við slíkar aðstæður. Má þar meðal annars nefna aukningu jarðstrengja í dreifikerfi RARIK, að ekki sé lengur varaafl til reiðu í Fjallabyggð ásamt aldri á stjórn- og rafbúnaði tveggja véla Skeiðsfossvirkjunar.
Nú þegar hefur verið tekin ákvörðun hjá Orkusölunni um að endurnýja stjórn- og rafbúnað í vélum Skeiðsfossvirkjunar. Er von okkar að með því geti Orkusalan lagt sitt af mörkum til að stytta þann tíma sem tekur að koma rafmagni á Fjallabyggð komi til sambærilegrar rekstrartruflana í framtíðinni. Yfirferð og úrbætur á öðrum atriðum er varða afhendingaröryggi rafmagns í Fjallabyggð er alfarið í höndum RARIK. Orkusalan mun samt sem áður, í samvinnu við RARIK, fylgja eftir nauðsynlegum úrbótum sem gera þarf vegna tengingar virkjunarinnar við dreifikerfið þannig að ef tenging við landskerfið rofnar sé tryggt að rafmagn komist sem allra fyrst frá virkjuninni til viðskiptavina í Fjallabyggð.
Þjónustugæði og rekstraröryggi er mikilvægur þáttur í starfsemi okkar og ánægja viðskiptavina skiptir okkur öllu máli. Við gerum okkur því grein fyrir því að rekstrartruflun á dreifikerfi RARIK sem þessi kemur illa við fólk.
Ég vil fyrir hönd Orkusölunnar biðja ykkur innilega afsökunar á óþægindunum sem þetta hafði í för með sér.
Með vinsemd og virðingu,
Magnús Kristjánsson.
framkvæmdastjóri Orkusölunnar