Úthlutun menningarstyrkja fyrir árið 2020
Fjallabyggð veitir ár hvert menningartengda styrki til félagasamtaka, stofnana og einstaklinga til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur, forgangsröðun og fjárhagsáætlun bæjarstjórnar.
Haustið 2019 voru gerðar breytingar á úthlutun styrkja hjá Fjallabyggð. Breytingarnar fólu í sér gerð nýrra úthlutunarreglna og einnig voru flokkar styrkja endurskoðaðir. Menningartengdum styrkjum er, eftir þessar breytingar, úthlutað í eftirfarandi flokkum vegna ársins 2020:
- Styrkir til menningarmála (einstök menningartengd verkefni)
- Styrkir til hátíðarhalda
- Styrkir til reksturs safna og setra
Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur samþykkt að veita styrki til þessara þriggja flokka á árinu 2020 að upphæð kr. 8.700.000.- Þar af fara kr. 2.700.000.- til einstakra menningartengdra verkefna, kr. 3.250.000.- til hátíðarhalda og kr. 2.750.000.- til reksturs safna og setra.
Áfram verður veittur styrkur til uppbyggingar Pálshúss og styrkur til bæjarlistamanns og eru þeir óbreyttir frá fyrra ári.
Úthlutaðir styrkir til menningarmála á árinu 2019 námu kr. 6.650.000.- auk uppbyggingarstyrks til Pálshúss og styrks til bæjarlistamanns og hafa því framlög Fjallabyggðar til menningarmála hækkað um kr. 2.050.000.- milli ára.
Úthlutaðir styrkir í flokknum Styrkir til menningarmála, nema samtals kr. 2.700.000.- Alls bárust 20 umsóknir að upphæð kr. 5.720.000.- þar af var fjórum umsóknum hafnað.
Úthlutaðir styrkir í flokknum Styrkir til reksturs safna og setra nema samtals kr. 2.750.000.- Alls bárust fjórar umsóknir, samtals að upphæð kr. 4.500.000.-
Úthlutaðir styrkir í flokknum Styrkir til hátíðahalda nema samtals kr. 3.250.000.- en alls bárust átta umsóknir, samtals að upphæð kr. 6.201.815.-
Umsækjendur um styrki á árinu 2020 fá sent bréf um ákvörðun bæjarráðs og markað- og menningarnefndar með tölvupósti á það netfang sem upp var gefið í umsókn um styrk sem og í almennum pósti.
Formleg athöfn um úthlutun styrkja verður haldin í Tjarnarborg þann 6. febrúar 2020 kl. 18:00, samhliða útnefningu bæjarlistamanns Fjallabyggðar og eru allir velkomnir.