Þriðjudaginn 6. febrúar fóru fram uppskerutónleikar Tónlistarskólans á Tröllaskaga í Víkurröst á Dalvík og hófust þeir kl. 17:00. Um var að ræða Nótuna en til þessara tónleika höfðu verið valdir nemendur til þátttöku. En undanfarin ár hafa nemendur unnið sér inn rétt til þátttöku í Nótunni með því að taka þátt í tónleikum í heimabyggð.
Tvö atriði voru valin úr hverjum flokki þ.e. grunnstigi, miðstigi og í opnum flokki en enginn nemandi kom af framhaldsstigi að þessu sinni.
Þeir nemendur sem valdir voru af grunnstigi voru þau Júlíus og Tryggvi Þorvaldsynir, en þeir léku á gítar og sungu lagið Not Alone eftir Harry Gardner og Sigríður Björk Hafstað sem söng lagið Migraine með Twenty-one Pilots. Undirleikari Sigríðar var Mathias Julien Sporrey.
Þeir nemendur sem valdir voru áfram af miðstigi, voru þau Helgi Halldórsson með lagið Classical Gas eftir Mason Williams, og lék hann það á gítar og Verónika Jana Ólafsdóttir sem lék á fiðlu Perpetual Motion eftir Carl Bohm.
Í opnum flokki voru einnig valin tvö atriði, þær Gunnhildur Lilja Kristinsdóttir, Svanbjörg Anna Sveinsdóttir, Verónika Jana Ólafsdóttir og Birna Karen Sveinsdóttir en þær léku allar á fiðlu segilsdúett Wolfgang Amadeus Mozart. Undirleikari þeirra var Páll Barna Szabó. Og söngatriði þeirra Amalíu Nönnu Júlíusdóttur og Magneu Lindar Pálsdóttur en þær fluttu lagið Tiger Mountain Peasant Song eftir Fleet Foxes. Undirleikur var í höndum Þorsteins Jakobs Klemenzsonar en hann lék á gítar.
Dómnefndina skipuðu þau Hólmfríður Ósk Norðfjörð, skólaritari Grunnskólans í Fjallabyggð, Hlín Torfadóttir, fyrrverandi skólastjóri tónlistarskólans á Dalvík og Vilhelm Anton Hallgrímsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðsins á Dalvík.
Öll þessi atriði taka svo þátt í Svæðistónleikum Norður- og Austurlands í Hofi á morgun föstudaginn 9. febrúar.
Allir velkomnir.