Fram kom í Svæðisútvarpinu fyrir helgi að unglingar á Eyjafjarðarsvæðinu eru mis vel launaðir. Sextán ára unglingar í Grýtubakkahreppi bera mest úr býtum þegar skoðað er tímakaup unglinga fyrir sumarvinnu hjá sveitarfélögum í Eyjafirði. Hæsta tímakaupið hjá fjórtán og fimmtán ára er hjá Dalvíkurbyggð. Lægsta tímakaupið hjá öllum þremur aldursflokkunum greiðir Fjallabyggð.
Þetta kemur fram í könnun sem Eining-Iðja gerði á launum fjórtán, fimmtán og sextán ára barna og unglinga fyrir vinnuframlag þeirra hjá sex sveitarfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu. Flest þessara sveitarfélaga borga talsvert lægra tímakaup en sveitarfélög í sambærilegum könnunum á Austurlandi og Vestfjörðum.
Grýtubakkahreppur greiðir lang hæst tímakaup til 16 ára unglinga, eða 731,88 en þeir fá greitt 20 prósenta álag fyrir slátt með orfi. Næst kemur Eyjafjarðarsveit með 577,13. Lægsa tímakaupið hjá 16 ára er hjá Fjallabyggð, eða 529 krónur, sem er tæpum 203 krónum lægra en hjá Grýtubakkahreppi.
Hjá aldurflokknum 15 ára greiðir Dalvíkurbyggð hæsta tímakaupið, eins og áður segir, eða 481 krónu. Næst kemur Grýtubakkahreppur með 480,94. Lægst tímakaup hjá 15 ára er hjá Fjallabyggð, sem greiðir 381 krónu á tímann.
Fjórtán ára börn fá hæsta tímakaupið hjá Dalvíkurbyggð, sem greiðir 417 krónur á tímann. Þar á eftir kemur Grýtubakkahreppur með 416,81. Og enn er Fjallabyggð með lægsta tímakaupið, en þar fá 14 ára börn greiddar 327 krónur á tímann.
Í tilkynningu frá Einginu Iðju segir að mikill munur virðist vera á því tímakaupi sem unglingar fá greitt fyrir sumarvinnu hjá sveitarfélögum. Sveitarfélög ákveði sjálf laun fyrir þessi ungmenni, en samkvæmt túlkun Launanefndar sveitarfélaga falli vinnuskólar sveitarfélaga ekki undir kjarasamninga stéttarfélaga, enda sé um að ræða sambland af vinnu og námi og að ungmennin séu yngri en 16 ára. Þrátt fyrir það virðist sveitarfélögin setja 16 ára ungmennin undir flokkinn Vinnuskóli.