Umfangsmikil rannsókn á svefnvenjum Íslendinga er hafin!

Mynd: af veraldarvefnum
Mynd: af veraldarvefnum

Umfangsmikil rannsókn á svefnvenjum Íslendinga og tengslum við heilsufar og lífsgæði er hafin. Að henni stendur þverfaglegt teymi sálfræðinga, lyfjafræðinga og lífeðlisfræðinga við Háskóla Íslands. Bréf hafa verið send til 10 þús. einstaklinga, sem voru valdir af handahófi úr þjóðskrá. Þátttaka felst í því að svara spurningalista rafræn en til þess að rannsóknin skili árangri er mikilvægt að sem flestir taki þátt.
Til þessa hafa rannsóknir sýnt að Íslendingar fara seinna að sofa en jafnaldrar í nágrannalöndum og sofa u.þ.b. klukkutíma skemur. Í nýlegri rannsókn Embættis landlæknis kemur fram að allt að fjórðungur einstaklinga eldri en 18 ára sefur að jafnaði innan við 6 klst. á nóttu sem er talið hafa skaðleg áhrif á heilsu.

Í rannsókninni nú verður lögð áhersla á að greina dægurgerð einstaklinga og meta áhrif á heilsufar og lífsgæði. Dægurgerð er hugtak sem lýsir kjörsvefntíma einstaklingsins á sólarhringnum; morgungerð fer snemma að sofa og vaknar árla morguns (morgunhani) en kvöldgerð fer seint að sofa og á vaknar seint (nátthrafn). Þegar skoðuð eru eldri gögn kemur í ljós að dægurgerð ungra Íslendinga (1-30 ára) er að jafnaði seinkuð, en seinkunin er áberandi mest hjá aldurshópnum 16-19 ára. Þeir sem eru með seinkaða dægurgerð ná ekki fullum svefni á virkum dögum. Ýmsir þættir geta stuðlað að þessu, t.d. mikil tækjanotkun á kvöldin (skjábirtan) en einnig er talið að of fljót klukka geti átt hlut að máli. Þannig er því einmitt háttað hér á landi, þar sem árið 1968 var samþykkt að hætta að skipta á milli sumar­ og vetrartíma og festa skyldi staðarklukkuna á miðtíma Greenwich sem er einu tímabelti austar en Ísland. Þetta þýðir að árið um kring er sólarupprás, hádegi og sólarlag á Íslandi klukkutíma seinna en náttúruleg klukka segir til um. Morgunbirtan er bráðnauðsynleg til að stilla lífklukkuna eins og áður sagði og hún er klukkutíma seinna á ferðinni. Það ýtir sterklega undir þá tilhneigingu að seinka svefntímanum. Þetta væri sök sér ef við gætum valið hvenær við vöknum, en svo er auðvitað ekki á virkum dögum, þegar vakna þarf til skóla eða vinnu. Afleiðingin er mögulega styttri svefn sem getur haft alvarlegar afleiðingar.

Í rannsókninni verður leitast við að meta áhrif seinkaðrar dægurgerðar á ýmsa þætti auk almenns heilsufars, m.a. mætingu og frammistöðu í skóla, matar- og neysluvenjur, hreyfingu o.fl.

Rannsakendur hvetja alla þá íbúa Fjallabyggðar sem fengið hafa boðsbréf til að taka þátt og svara spurningalistanum. Um er að ræða afar mikilvæga gagnasöfnun þar sem hægt verður í fyrsta sinn að kortleggja svefnvenjur Íslendinga á breiðu aldursbili alls staðar af landinu.