Um 350 íbúar hafa tekið þátt í frjórri umræðu

Frá fundinum í Tjarnarborg
Frá fundinum í Tjarnarborg
Sá síðari af íbúafundum í Fjallbyggð var haldinn Tjarnarborg í Ólafsfirði í fyrrakvöld. Þar mættu um 110 manns og hafa þar með um 350 manns tekið virkan þátt í samræðu um framtíð Fjallabyggðar, undir yfirskriftinni Fjallabyggð er frumkvöðull.
Fundurinn einkenndist af miklum krafti og frjóum hugmyndum. Líkt og á Siglufirði var ferðaþjónusta heimamönnum efst í huga sem eitt helsta sóknarfæri sveitarfélagsins. Meðal annarra hugmynda sem ræddar voru má nefna útivistarparadís, heilsubæ, góð búsetuskilyrði fyrir eldri borgara og að nýta vatnið, sem nú hefur fundist í Héðinsfjarðargöngum, til atvinnusköpunar.
Að mati fundarmanna er brýnt að framhaldsskólinn rísi sem fyrst. Bent var á mikilvægi þess að hlúa að hugvitinu á svæðinu og kallað eftir meira félagslífi, m.a. fyrir ungt fólk í tengslum við framhaldsskólann.
Líkt og á fundinum á Siglufirði, kynnti Sigríður Ingvarsdóttir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, þær leiðir sem þar eru í boði fyrir frumkvöðla og nýsköpun.
Fundinum stýrði Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta, Grundarfjarðarútibúi. Alta mun skila samantekt sinni til bæjarstjórnar í lok mánaðarins og verða í framhaldi af því teknar ákvarðanir um næstu skref.