Trúnaðarmaður fatlaðs fólks með kynningu í Fjallabyggð fimmtudaginn 23. júní

Guðrún Pálmadóttir
Guðrún Pálmadóttir
Fundurinn verður haldinn á Brimnes hóteli á Ólafsfirði kl. 9 og kl. 11 í húsnæði Iðju dagvistar, Aðalgötu á Siglufirði.

Í maí 2011 tók til starfa nýr trúnaðarmaður fólks með fötlun á Norðurlandi. Svæðið sem nýtur þjónustu trúnaðarmanns er frá Hrútafirði til vesturs og að Bakkafirði til austurs. Á sama tíma voru skyldur trúnaðarmanns auknar frá því sem áður var skilgreint í lögum. Megin hlutverk trúnaðarmanns samkvæmt nýjum lögum er:

·       Að fylgjast með högum fólks með fötlun og aðstoða það við gæslu á réttindum þeirra.

Bæði er þarna um að ræða eftirlitsskyldu með högum fólks með fötlun og stuðningur við þá. Stuðningurinn getur verið við að aðstoða við persónuleg réttindi fólks með fötlun, meðferð á einkafjármunum þeirra, einkamál eða vegna þjónustu sem fatlaðir eiga rétt á.

·       Að veita þeim, sem til hans leita, stuðning og aðstoð við að leita réttar síns.

Trúnaðarmaður aðstoðar fólk með fötlun að finna úræði og fylgir málum eftir þangað til lausn er fundin.

·       Fatlaður einstaklingur getur leitað til trúnaðarmanns með allt sem varðar réttindi hans.  Hver sá sem telur að brotið sé á réttindum einstaklings með fötlun getur tilkynnt það trúnaðarmanni.

Það felur í sér  að þeir sem eru fatlaðir geta leitað aðstoðar sem og ættingjar, vinir eða hver sem er sem upplifir að brotið sé á fötluðum einstaklingi.

·       Trúnaðarmaður getur tekið upp mál að eigin frumkvæði.

Þetta er hluti af eftirlitsskyldu trúnaðarmanns þar sem trúnaðarmaður ferðast um og fylgist með högum þess sem ekki getur haft samband við trúnaðarmann að eigin frumkvæði. Og getur hann skoðað mál sem honum virðist vera réttur brotin á fötluðum.

·       Trúnaðarmaður skal standa fyrir fræðslu fyrir fatlað fólk og þá sem starfa fyrir fólk með fötlun.

Trúnaðarmanni ber skylda til að fræða fólk um réttindi þess og sjá til þess að fræðslu sé komið til þeirra og þeim sem hafa umsjón með þjónustu við þá. (Sjá nánar  reglugerð nr. 172/2011 )      

Guðrún Pálmadóttir er skipuð trúnaðarmaður á Norðurlandi til 1 árs. Hún hefur unnið sem þroskaþjálfi og ráðgjafi frá útskrift 1988 úr Þroskaþjálfaskólanum. Hún var uppeldislegur og meðferðalegur ráðgjafi í sínu starfi fyrir Félagsþjónustu Húnvetninga á árunum 1988- 2005. Árið 2004 lauk hún námi í EHÍ í verkefnastjórnun og vann frá 2005 - 2007 við að skipuleggja heimaþjónustu hjá Akureyrarbæ. Hún hefur verið að vinna við stuðning innan félagsmálakerfisins og fleiri verkefni eftir að hafa lokið BA í sálfræði vorið 2010.

Sími trúnaðarmanns á Norðurlandi 858-1959