Tónlistarnám hluti af samfelldum skóladegi yngri nemenda

Eitt af markmiðum Fræðslustefnu Fjallabyggðar er að markvisst skuli unnið að því að auka samstarf við annað tómstundaframboð barna og ungmenna þannig að tónlistarnám geti verið hluti af samfelldum skóladegi. Með nýju fræðslustefnunni er mögulegt að starfrækja samþætt skóla- og frístundarstarf fyrir börn í 1.-4.bekk, svokallaða Frístund. Forsendan fyrir frístundarstarfi í þessari mynd er að yngri börnin séu í sama skólahúsi. Frístund hefur reynst vel, þó svo að hnökrar hafi komið upp í byrjun skólaársins. Tónlistarskólinn á Tröllaskaga (TÁT) kemur að fullum krafti inn í Frístund með öflugt og fjölbreytt hópastarf sem er foreldrum að kostnaðarlausu. Því má segja að tilkoma Frístundar sé tækifæri til að vinna að áðurnefndu markmiði fræðslustefnunnar. Það sem nemendur í 1.-4.bekk hafa um að velja í Frístund á vegum TÁT er:

Barnakór Tónlistarskólans, 2.-4. bekkur: Unnið er með grunnþætti tónlistarinnar í gegnum söng, hlustun og hreyfingu.

Forskóli tónlistarskólans, 1.-2. bekkur: Meginmarkmið forskóla er að búa nemendur undir hljóðfæranám.

Ukulele-sveit Tónlistarskólans, 3.-4. bekkur: Ukulele er lítið strengjahljóðfæri sem kemur úr gítarfjölskyldunni, það er mjög meðfærilegt og þægilegt að byrja á að læra fyrstu hljómana og syngja með einföldum lögum.

Slagverkshópur 3.-4. bekkur: Kennt á kúabjöllur, hristur, clave, jam blocks, cabssa og tamborinur.

Fræðslustefnan hentar vel fyrir tónlistarskólann og tónlistarnám í Fjallabyggð. Leiðarljós hennar Kraftur, sköpun og lífsgleði eru þau gildi sem Tónlistarskólinn á Tröllaskaga miðlar til nemenda sinna í gegnum hljóðfæranámið og hópastarfið í Frístund. Þá er einnig unnið að því að auka áhuga eldri nemenda á að læra sköpun í tónlist.