Tillögur að framtíðarskipulagi fræðslumála

Fræðslunefnd Fjallabyggðar hefur lagt fram tillögur að framtíðarskipan fræðslumála í sveitarfélaginu. Í þeim felst að grunnskólarnir á Siglufirði og í Ólafsfirði verði sameinaðir í eina stofnun, leikskólarnir í eina og tónskólar í eina. Tillögurnar hafa verið kynntar bæjarstjórn og á fundi hennar í gær var samþykkt að kynna þær fyrir almenningi. Stefnt er að kynningarfundum í fyrstu vikum janúarmánaðar á komandi ári.

Börnum hefur fækkað í Fjallabyggð á undanförnum árum og útlit er fyrir að nemendum í leik- og grunnskóla muni fækka enn meira á næstu árum. Það er því talið nauðsynlegt bæði af faglegum og fjárhagslegum ástæðum að laga skipulag fræðslustofnananna að breyttum aðstæðum. Sameining Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og stórbættar samgöngur á milli bæjanna skapa ný tækifæri á þessu sviði.

Helstu breytingarnar sem felast í tillögum fræðslunefndar eru þær að fræðslustofnunum yrði fækkað úr sex í þrjár og starfsstöðvum þeirra úr átta í sex. Mestar breytingar yrðu á skipulagi skólastarfs grunnskóla, enda er gert ráð fyrir að starfsemin yrði sameinuð í einu skólahúsi á hvorum stað innan 2-3 ára og að nemendum yrði keyrt milli bæjarkjarnanna til að ná upp vænlegri bekkjarstærðum. Gert er ráð fyrir að unglingastigið yrði sameinað fljótlega eftir að Héðinsfjarðargöng verða tekin í notkun og að kennslan færi fram í skólahúsinu við Hlíðarveg á Siglufirði (efra skólahús). Yngra stiginu yrði áfram kennt á báðum stöðum í 2-3 ár en þá yrði það sameinað í skólahúsinu við Tjarnarstíg í Ólafsfirði. Unglingastigið myndi þá færa sig um set í skólahúsið við Norðurgötu á Siglufirði (neðra skólahús). Tíminn fram að þessum breytingum yrði nýttur til að gera nauðsynlegar breytingar á skólahúsnæðinu.

Fræðslunefnd leggur einnig til að stjórnskipulag skólanna verði einfaldað og stjórnendum fækkað. Öðru starfsfólki fræðslustofnananna mun óhjákvæmilega fækka á næstu árum haldi nemendum áfram að fækka en ekki er talið að skipulagsbreytingarnar sem slíkar hafi teljandi áhrif á fjölda kennslustöðugilda.

Smelltu hér til að hlaða niður greinargerð fræðslunefndar.

Einnig er fjallað um tillögur fræðslunefndar á bls. 3 í nýútkomnu fréttabréfi Fjallabyggðar.