Tilkynning frá Sparisjóði Ólafsfjarðar

Fjallabyggð hefur borist tilkynning frá Sparisjóði Ólafsfjarðar um aðgerðir til að styrkja stöðu sjóðsins. Í tilkynningunni kemur fram að stofnfé sjóðsins hafi verið aukið til að hækka eiginfjárhlutfall sjóðsins upp fyrir lögbundið lágmark. Smellið á "Lesa meira" til að lesa tilkynninguna.  

Staða Sparisjóðs Ólafsfjarðar tryggð með aukningu stofnfjár

Stofnfé Sparisjóðs Ólafsfjarðar hefur verið aukið. Sú aukning fór þannig fram að hluta af kröfum aðaleiganda sjóðsins var breytt í stofnfé með skuldajöfnun. Við þetta hækkaði eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Ólafsfjarðar, svokallað CAD hlutfall, upp fyrir lögbundið lágmark.

Hluti af aðgerðum stjórnvalda gagnvart fjármálastofnunum í landinu snýr að styrkingu sparisjóðanna. Fyrir liggur að Sparisjóður Ólafsfjarðar getur enn frekar styrkt stöðu sína með því að óska eftir 20% eiginfjárframlagi frá ríkisvaldinu, svo sem lög kveða á um.

Forsvarsmenn Sparisjóðs Ólafsfjarðar undirstrika að innistæður séu tryggar og að hagsmunir viðskiptavina hafi verið hafðir að leiðarljósi í þessum aðgerðum. Eftir þær sé sjóðurinn betur í stakk búinn að þjónusta einstaklinga og fyrirtæki, bæði í Ólafsfirði sem og annars staðar.

Nánari upplýsingar veitir Jónas Björnsson, sparisjóðsstjóri, í síma 460-2700.