Tilkynning vegna undirskriftasöfnunar

Á fundi sem fram fór þann 13. júní 2017 tók Bæjarráð Fjallabyggðar fyrir erindi um "fyrirhugaða undirskriftasöfnun vegna almennrar atkvæðagreiðslu um fræðslustefnu Fjallabyggðar. Bæjarráð telur að ákvæði 3.mgr. 108.gr sveitastjórnarlaga hamli því ekki að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðareiðslu".

Tilefni undirskriftasöfnunarinnar er mikil óánægja á meðal íbúa Fjallabyggðar með ákvörðun bæjarstjórnar um breytingar á fræðslustefnu sveitarfélagsins.
Undirskriftasöfnunin mun vera ákall og áskorun til bæjarstjórnar um að endurskoða þessar breytingar og setja þær á bið uns farið hefur fram lýðræðisleg kosning með almennri atkvæðagreiðslu bæjarbúa.

Undirskriftasöfnunin hefst 23. júní og mun ljúka mánudaginn 3. júlí. Gengið verður í hús í Fjallabyggð og einnig er hægt að taka þátt rafrænt á slóðinni listar.island.is/Stydjum/14

Ábyrgðaraðili undirskriftasöfnunarinnar er Kristján Hauksson.

Samkvæmt 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórnar nr. 5/1998 sbr. 1. gr.  reglugerðar nr. 155/2013 um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum, getur sá sem verður 18 ára þann dag sem undirskriftasöfnun lýkur tekið þátt.