Þjónustu- og upplýsingamiðstöð og safnahús í Ólafsfirði

Tillaga að nýju útliti að Ólafsvegi 4 - suðurhlið
Tillaga að nýju útliti að Ólafsvegi 4 - suðurhlið
Líkt og flestum íbúum Fjallabyggðar er kunnugt er verið að gera breytingar á 3ju hæð í ráðhúsinu á Siglufirði í þeim tilgangi að sameina starfsmenn bæjarskrifstofunnar á einn og sama stað 
og munu þeir starfsmenn sem hafa haft aðsetur í Ólafsfirði flytjast í ráðhúsið nú í byrjun maímánaðar. Þrátt fyrir það leggur bæjarstjórn Fjallabyggðar áherslu á að áfram verði þjónusta - móttaka fyrir bæjarbúa, búsetta í Ólafsfirði, í núverandi húsnæði bæjarskrifstofunnar að Ólafsvegi 4 eins og verið hefur og þar geti þeir rekið sín mál. Sú þjónusta sem í boði verður er m.a.: 
· Deildarstjórar bæjarfélagsins munu vera með fasta viðtalstíma.
· Bæjarstjóri verður þar með fasta viðveru.
· Félagsþjónustan mun hitta sína skjólstæðinga á þessum stað.
· Fundaraðstaða verður til staðar fyrir nefndarfundi og önnur fundarhöld. 
· Önnur þjónusta svo sem þjónusta Vinnumálastofnunar, atvinnuleysisskráning og viðtöl við atvinnulausa mun fara þar fram.  
· Virk starfsendurhæfing og starfsendurhæfingar norðurlands verða áfram með óbreyttum hætti á staðnum.

Á nýrri heimasíðu sveitarfélagsins sem stefnt er að opnun á í sumar mun jafnframt verða aukning á rafrænni þjónustu sveitarfélagsins þar sem komið verður upp íbúagátt þar sem íbúar geta með rafrænum hætti sótt um þjónustu til sveitarfélagsins, sent inn formleg erindi, fylgst með framgangi sinna mála, komið ábendingum á framfæri og ýmislegt fleira.

Jafnframt hefur bæjarstjórn ákveðið að bókasafnið í Ólafsfirði verði flutt í sama húsnæði og þar með er allri óvissu um framtíð bókasafnsins eytt. Til að þetta geti orðið að veruleika þarf að ráðast í umtalsverðar breytingar á húsnæðinu og verða þær framkvæmdir boðnar út í maí. Meðal þess sem þarf að gera er eftirfarandi;

- Húsnæðið verður lagfært og það endurhannað fyrir umrædda starfsemi.
- Húsnæðið mun stækka um 40 m2 á tveimur hæðum.
- Lagfæra þarf gler og glugga.
- Aðkomu þarf að bæta.
- Aðgengi verður lagfært.
- Lyfta verður sett upp á milli hæða.
- Veggir teknir niður til að þjóna bókasafninu.

Opnunartími á Ólafsvegi 4, verður alla virka daga.

Verið er að stofna Sigurhæðir ses – sjálfeignarfélag um safnahús í Ólafsfirði.
Á fundi bæjarráðs þann 1. apríl sl. var lagt fram bréf frá stjórn Hollvinafélaga Sigurhæðar sem er áhugamannafélag um stofnun og reksturs safnahúss í Ólafsfirði. Á fundi bæjarráðs þann 16. apríl sl. voru síðan samþykkt drög að samþykktum fyrir sjálfseignarstofnunina Sigurhæðir ses. sem og tillögu að þjónustusamningi við Sigurhæðir ses. sem mun taka við rekstri á Náttúrugripasafninu í Ólafsfirði. 
Þegar breytingum á Ólafsvegi 4 verður lokið og bókasafnið hefur flutt sína starfsemi úr Sigurhæðum mun hollvinafélagið fá húsið afhent undir safnahús. Náttúrugripasafnið verður áfram rekið á núverandi stað undir stjórn Sigurhæða ses.  

Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri.


Tillaga að nýju útliti að Ólafsvegi 4.
Teiknistofan Víðihlíð 45, Reykjavík.
Ævar Harðarson, arkitekt.