Þjóðhátíðardeginum 17. júní fagnað í Fjallabyggð

Fjallkonan 2019 Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir
Fjallkonan 2019 Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní var mikið um að vera í Fjallabyggð þar sem í boði var fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Dagurinn byrjaði snemma þegar fánar voru dregnir að húni. Ungmennafélagið Glói endurvakti götuhlaup 17. júní á Siglufirði eftir 8 ára hlé. Ríflega 20 krakkar tóku þátt. Hlaupið fór fram á gamla malarvellinum og var keppt í fjórum aldursflokkum og var sá yngsti fjölmennastur. Allir fengu verðlaun fyrir þátttökuna.

Hátíðardagskrá var í Siglufjarðarkirkju klukkan 11:30 þar sem nýstúdentinn Sóley Lilja Magnúsdóttir lagði blómsveig að minnisvarða Sr. Bjarna Þorsteinssonar, kirkjukór Siglufjarðar söng tvö lög Blessuð sértu sveitin mín og Þjóðsöng Íslendinga, Ó, guð vors lands og tóku gestir vel undir. Ólafur Stefánsson, formaður markaðs- og menningarnefndar flutti ávarp. Að lokinni athöfn voru gestir hvattir til að ganga að Þjóðlagasetri Sr. Bjarna þar sem boðið var upp á kaffi og Lýðveldisköku en í ár heldur Lýðveldið Ísland upp á 75 ára afmæli. Af því tilefni var gestum í Fjallabyggð boðið upp á Lýðveldisköku við Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar og einnig í Tjarnarborg. Landssamband bakarameistara hannaði kökuna í samstarfi við forsætisráðuneytið í tilefni dagsins og var kakan í Fjallabyggð 4 metrar að lengd.

Hið árlega Kaffihlaðborð Blakfélags Fjallabyggðar var svo haldið í Einingu-Iðju Siglufirði og sýning Kristínar Gunnlaugsdóttur var opin í Kompunni í Alþýðuhúsinu. Hin árlega ljósmyndasýning á Ljósmyndasögusafninu Saga-Fotografica á Siglufirði var formlega opnuð en þar eru til sýnis myndir eftir Ragnar Axelsson, RAX og Leif Þorsteinsson. Á Ljóðasetri Íslands flutti Þórarinn Hannesson eigin lög við ljóð eftir Siglfirðinga. Kaffi Klara í Ólafsfirði bauð upp á hátíðarbrunch og svo var hinn árlegi 17. júní fótboltaleikur 7. og 8. flokks KF, á fótboltavellinum í Ólafsfirði.

Við Menningarhúsið Tjarnarborg hófst stórglæsileg hátíðardagskrá klukkan 14:00 og er það fræðslu- og menningarnefnd slökkviliðsins í Ólafsfirði sem hefur veg og vanda að hátíðardagskránni á hverju ári. Hátíðarræðu flutti Ingibjörg G. Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar og Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir var Fjallkona að þessu sinni og fór hún með ljóðið Land míns föður eftir Jóhannes úr Kötlum. Tónlistin var í höndum ungliðanna í hljómsveitinni Ronju og ræningjarnir ásamt Tríó Regína og Stórsveit Siglufjarðar. Annars voru það leiktækin sem áttu hug og hjörtu barnanna. Margir biðu svo eftir vatnsrennibrautinni sem er gerð úr skíðastökkpallinum og nýtur hún alltaf jafn mikilla vinsælda. Áætlað er að 600 manns hafi smakkað á Lýðveldiskökunni í Tjarnarborg og við Þjóðlagasetur Sr. Bjarna Þorsteinssonar á þjóðhátíðardaginn.